Innlent

Ólafur Ragnar fundar með Bill Gates

Bill Gates kynnir nýtt stýrikerfi Microsoft, Windows Vista.
Bill Gates kynnir nýtt stýrikerfi Microsoft, Windows Vista. MYND/AP

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, fundar í dag með Bill Gates, stofnanda og stjórnarformanni Microsoft hugbúnaðarfyrirtækisins, í Edinborg þar sem forsetinn sækir leiðtogaráðstefnu sem haldin er í skoska þinginu.

Eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands ber ráðstefnan heitið Microsoft Government Leaders Forum og er þar fjallað um áhrif upplýsingatækni á lýðræði og atvinnulíf í Evrópu. Gestgjafar ráðstefnunnar eru Bill Gates og Gordon Brown, fjármálaráðherra Breta.

Í erindinu fjallaði forsetinn meðal annars um breytingar sem orðið hafa á lýðræðisskipan í álfunni og áhrif upplýsingatækni á möguleika einstaklinga til að hafa áhrif, jafnt á heimavelli sem á alþjóðlegum vettvangi. Hann ræddi um tækifæri sem smáar þjóðir á borð við Íslendinga geta skapað sér með markvissri nýtingu fjarskipta- og upplýsingatækni og sagði Ísland kjörinn vettvang fyrir Microsoft og önnur öflug hugbúnaðarfyrirtæki til að þróa nýjan hugbúnað og tækni. Ísland væri í fremstu röð varðandi hlutfallslega notkun á tölvum og farsímum og netvæðing komin lengra en í flestum öðrum ríkjum, markaður sé háþróaður og stjórnsýsla gegnsæ. Þessir eiginleikar geri Ísland kjörið til að vera þróunarvettvangur fyrir nýjan hugbúnað.

Ráðstefnuna sækja forystumenn margra ríkja í Evrópu og áhrifafólk á sviði upplýsingatækni.

Erindi forsetans í heild á vef forsetaembættisins




Fleiri fréttir

Sjá meira


×