Innlent

Boðað til stjórnarfundar eftir Kompás

Boðað hefur verið til stjórnarfundar á Vernd vegna umfjöllunar Kompáss um dæmdan barnaníðing, þar sem ræða á hvort krafist verði endurskoðunar á hverjir fái að ljúka þar afplánun. Íbúar hverfisins eru órólegir vegna málsins og því að barnaníðingar geti tekið út hluta refsingar sinnar í hverfinu.

Kompás fjallaði í gær um dæmdan barnaníðing, Ágúst Magnússon, sem árið 2004 var dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að níðast á sex drengjum. Ágúst var kominn á Vernd til að ljúka afplánun sinni og hafði þar tölvur og nettengingu. Á meðan hann var þar var hann búinn að setja sig í samband við börn í kynferðislegum tilgangi og gekk hann svo langt að mæta í íbúð þar sem hann taldi sig finna þrettán ára stúlku.

Hverjir fái að ljúka afplánun á Vernd er metið í hverji tilviki fyrir sig segir Valtýr Sigurðsson fangelsismálastjóri. Hann segir ekkert hafa bent til þess að Ágúst gæti ekki dvalið á Vernd. Hann hafi uppfyllt öll skilyrði. Valtýr segir Ágúst hafa farið í 21 sálfræðitíma áður en dómur féll og svo hefur hann farið í fimmtíu slíka í refsivistinni og í þeim var hann farinn að skilja alvarleika brotanna. En hann segir að út frá nýjustu upplýsingum þurfi að fara vandlega yfir allt málið í heild.

Valtýr segir málið muni hafa áhrif á möguleika Ágústs um að fá að fara aftur á Vernd því bíða þurfi niðurstöðu lögreglurannsóknar. Eins hefur það áhrif á möguleika á reynslulausn sem Ágúst hefði getað sótt um í maí. Valtýr segir sér hafa verið brugðið við þáttinn.

Þráinn Farestsveit, framkvæmdastjóri Verndar, segir íbúa hafa haft samband í dag vegna málsins og mun stjórn Verndar koma saman á morgun. Þar á að ræða hvort þeir ætli að beita sér fyrir því reglum um hverjir fái vistun verði breytt.

Lögreglan hefur lagt hald á tvær tölvur og harða diska í eigu Ágústs og er grunur um að þar finnist ólöglegt efni. Umfjöllun Kompáss var víða rædd í dag og var Alþingi þar engin undantekning.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.