Innlent

Krefjast lokunar fangabúða í Guantánamo

Úr Guantánamo-búðunum.
Úr Guantánamo-búðunum. MYND/Reuters
Íslandsdeild Amnesty International stendur á morgun fyrir útifundi á Lækjartorgi klukkan 17 þar sem þess verður krafist að að fangabúðum Bandaríkjamanna við Guantánamo-flóa verði lokað. Fram kemur í tilkynningu frá samtökunum að búðirnar hafi nú verið starfræktar í fimm ár og verður blöðrum sleppt á torginu á morgun til að undirstrika kröfuna. Sambærilegar uppákomur og mótmæli munu fara fram í yfir 20 löndum víða um heim.

„Íslandsdeild Amnesty International fer jafnframt fram á að ríkisstjórn Íslands og Alþingi fordæmi fangabúðirnar við Guantánamo-flóa opinberlega. Ísland og alþjóðasamfélagið verða að þrýsta á Bandaríkin um að loka fangabúðunum og virða alþjóðalög.

Guantánamo er orðið að tákni fyrir svikin loforð Bandaríkjastjórnar um að lögfesta yrði kjarninn í öllum aðgerðum sem gripið yrði til í kjölfar árásanna 11. september 2001. Pyndingar, niðurlæging, mismunun og refsileysi er meðal þess sem á sér stað í Guantánamo. Auk þess eru dómstólar sniðgengnir og skuldbindingar samkvæmt alþjóðasamningum virtar að vettugi," segir í tilkynningu samtakanna.

Þar er enn fremur bent á fyrstu fangarnir hafi komið til Guantánamo-flóa 11. janúar 2002. Þeir urðu 750 þegar mest var og voru þá af um 45 þjóðernum. Meðal fanga hafi verið börn allt niður í 13 ára, fólk sem var einfaldlega á röngum stað á röngum tíma og fjöldi einstaklinga sem voru seldir frá Pakistan og Afganistan í hendur Bandaríkjamanna fyrir þúsundir dollara. Nú séu enn um 400 einstaklingar í haldi í fangabúðunum við Guantánamo-flóa og enginn þeirra hafi fengið réttað í máli sínu og enginn hafi komið fyrir dóm.

„Það er staðreynd að leyniþjónusta Bandaríkjanna, CIA, hefur starfrækt yfirheyrslustöð í Guantánamo þótt mikil leynd hvíli yfir starfsemi stofnunarinnar. Amnesty International hefur vakið athygli Bandaríkjastjórnar á ásökunum um að erindrekar annarra ríkja, m.a. Kína og Líbíu, hafi verið á flotastöðinni og tekið þátt í illri meðferð á föngum.

Sumum fanganna var haldið í leynifangelsum CIA í öðrum heimshlutum áður en þeir voru fluttir til Guantánamo. Guantánamo er miðstöð í neti leynifangelsa og framsals sem Bandaríkjamenn hafa lagt um gjörvallan heim í samstarfi við aðrar ríkisstjórnir í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, svo dæmi séu tekin. Tími er kominn til að Bandaríkin og samsekar ríkisstjórnir bindi enda á leyndina og misbeitinguna. Ráðstafanir Bandaríkjastjórnar hafa langt í frá aukið öryggi heldur hafa þær veikt mannréttindi og lögfestu sem eru besta vörnin við ógnunum.

Bandaríkjastjórn hefur ekki aðeins hundsað alþjóðleg mannréttindaviðmið. Hún hefur einnig komið í veg fyrir eftirlit eigin dómstóla með lögum og reglu í Guantánamo. Í október 2006 skrifaði Bush Bandaríkjaforseti undir lög sem kallast Military Commissions Act sem sviptir bandaríska dómstóla valdi til að fjalla um habeas corpus-kröfur frá erlendum varðhaldsföngum sem teljast „óvinveittir bardagamenn" í Guantánamo og annars staðar. Habeas corpus felur í sér grundvallarvernd gegn handahófskenndu varðhaldi og pyndingum. Amnesty International berst fyrir endurreisn habeas corpus og afnámi eða stórfelldum breytingum á Military Commissions Act," segir að endingu í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×