Innlent

Matvælaverð á Íslandi hæst í heimi

Matvælaverð hér á landi er að öllum líkindum hið hæsta í heimi og það sama á við heildarútgjöld heimilanna.

Matvælaverðið er rúmlega sextíu prósentum yfir meðaltali á Evrópska efnahagssvæðinu og langhæst þar samkvæmt Hagstofu Evrópusambandsins. Munurinn er orðinn enn meiri því þessi samantekt nær ekki til nýjustu og fátækustu ríkja Evrópusambandsins.

Þetta þýðir að ef einhver matvara kostar hundrað krónur að meðaltali í Evrópusambandinu kostar hún hundrað sextíu og tvær krónur hér á landi.

Bent hefur verið á að hér ríki fákeppni í matvöruverslun og að landbúnaðurinn sé varinn fyrir samkeppni með verndartollum. Nefnd forsætisráðherra um lækkun matarverðs tók á hvorugu þessara atriða þegar ákveðið var að lækka virðisaukaskatt nýverið.

Aðeins fjögur önnur lönd eru yfir meðaltalinu. Í Noregi er matvælaverð næsthæst og Sviss er í þriðja sæti en Ísland og þessi tvö ríki eru í EFTA, og svo koma Evrópusambandslöndin Danmörk og Svíþjóð.

Heildarútgjöld heimilanna eru líka hæst á Íslandi af öllum á Evrópska efnahagssvæðinu, eða fjörutíu og sex prósentum yfir meðallagi, að nýjustu aðildarríkjunum undanskildum eins og í fyrra dæminu. Þetta tekur til kostnaðar vegna húnæðiskaupa, rafmagns, hita, trygginga, reksturs bíls og fleiri rekstrarþátta venjulegs heimilis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×