Innlent

Ljósastaurar brotnuðu í Hlíðarfjalli í fárviðri

Ljósastaurar brotnuðu í Hlíðarfjalli í fárviðrinu sem gerði laust fyrir jól. Lítið varð úr þeim skíðajólum sem margir vonuðust eftir en þó var opið nokkra daga í fjallinu milli jóla og nýárs.

Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður skíðasvæðis Akureyringa, segir að mjög dapurt ástand hafi verið í fjallinu síðustu daga. Aftakahláku gerði laust fyrir jól með þeim afleiðingum að gríðarmikill skíðasnjór sem safnast hafði í brekkur Hlíðarfjalls bráðnaði allur. Aðeins tilbúni snjórinn hélt velli en þó varla meir en svo.

Þó var opið í fjallinu fjóra daga milli jóla og nýárs en aðstæður til skíðaiðkunar voru erfiðar. Það er þó huggun harmi gegn að uppistöðulónið nýja í fjallinu sem notað er til að búa til snjó með vélum hélt velli og skemmdist ekki í flóðunum.

Hins vegar féllu minni háttar aurskriður og ljósastaurar brotnuðu þegar hvassast var. Vindhraði sló í 57 metra á sekúndu á Þorláksmessu sem er með því mesta, en suðvestanáttinn er skíðasvæðinu skæð að sögn forstöðumanns. Nú er útlit fyrir norðlægar áttir og batnandi skíðatíð að sögn Guðmundar Karls Jónssonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×