Innlent

Mikill hnykkur og allt lauslegt fór á fleygiferð

MYND/Anton Brink
„Þetta var mikill hnykkur og skyndilegur en stóð stutt yfir en allt lauslegt fór á fleygiferð," segir Tómas Ingi Olrich, sendiherra Íslands í Frakklandi, sem var farþegi í Boeing 757 flugvél Icelandair sem lenti í mikilli ókyrrð á leið sinni frá Keflavíkurflugvelli til Parísar í morgun. Þrír úr áhöfn flugvélarinnar hlutu minni háttar áverka vegna þessa en farþegar sluppu ómeiddir en var nokkuð brugðið.

Tómas sagði í samtali við Vísi að áhöfnin hafi líklega verið byrjuð að dreifa mat því bæði matur og drykkir hefðu tvístrast um vélina en farþegar aftar í vélinni hafi líklega fundið meira fyrir því. Hann hafi sjálfur setið framarlega í vélinni.

Aðspurður sagði hann að farþegum hefði brugðið nokkuð en að áberandi hefði verið hversu rólegt fólk hefði verið í kjölfarið. Íslendingar sem hann hefði rætt við eftir að vélin lenti hafi tekið þessu með ró enda margir hverjir vanir erfiðum flugleiðum hér á landi. Það eigi einnig við hann sjálfan. Hins vegar telji hann að atvik sem þetta sé vond reynsla fyrir þá sem flughræddir séu en það sé alltaf einhver hópur.

Þá segir Tómas áhöfnina hafa að hans mati brugðist mjög vel við og að flugstjórinn hefði tilkynnt á íslensku og ensku hvað hefði gerst. Jafnframt að þeim farþegum sem vildu yrði boðin áfallahjálp þegar vélin lenti. Þá hafi frönskumælandi fulltrúi frá Icelandair farið yfir málin þegar vélin hafi lent á Charles de Gaulle flugvelli.

Vélin kom til Parísar um klukkan 12 á hádegi að íslenskum tíma. Öryggisskoðun á flugvélinni fer fram á flugvellinum og hefur önnur flugvél og önnur flugáhöfn verið send ytra til þess að fljúga farþegum heim síðdegis í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×