Íslenski boltinn

Keflavík og ÍA hafa slíðrað sverðin í bili

Þjálfarar ÍA og Keflavíkur voru samstarfsmenn hjá Keflavík á sínum tíma en það eru litlir kærleikar með þeim í dag.
Þjálfarar ÍA og Keflavíkur voru samstarfsmenn hjá Keflavík á sínum tíma en það eru litlir kærleikar með þeim í dag. MYND/E.ól

Forráðamenn og leikmenn ÍA og Keflavíkur hafa tekið þá ákvörðun að tjá sig ekki frekar um leikinn skrautlega á miðvikudaginn í bili. Þrátt fyrir þá staðreynd er enn mikill hiti í mönnum og miðað við viðbrögð viðmælenda Fréttablaðsins í gær stendur ekki til að kveikja í friðarpípu á næstunni.

Samkomulagið mun standa þar til aga- og úrskurðarnefnd KSÍ kveður upp úrskurð sinn í málefnum félaganna sem verður að öllum líkindum á fundi sínum á þriðjudag.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu stendur orð gegn orði í nánast öllum hlutum málsins og greinargerðirnar sem koma frá félögunum verða þar af leiðandi væntanlega gjörólíkar ef að líkum lætur.

Stór orð hafa fallið síðustu daga og hótanir um meiðyrðamál hafa skotið upp kollinum. Hvort einhver alvara verði úr þeim málum mun því ekki liggja fyrir fyrr en eftir helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×