Innlent

Áhöfn Gnár bárust óvenjulegar þakkir

TF. Líf og TF. Gná við störf
TF. Líf og TF. Gná við störf MYND/365

Áhöfn Landhelgisgæsluþyrlunnar Gnár bárust í gær nokkuð óvenjulegar þakkir frá áhöfninni á bandaríska rannsóknaskipinu Knorr. Gná hafði ferjað nýjan rannsóknakapal til skipsins í stað kapals sem hafði skemmst. Þyrlan sótti einnig bátsmanninn sem var meiddur á fæti og kom honum til læknis á Landspítala Háskólasjúkrahúsi í Fossvogi.

Gná fór í verkefnið samhliða eftirliti. Áhöfnin á Knorr og flokkur vísindamanna um borð þakkaði fyrir sig og sagði um leið frá heimasíðu á netinu þar sem greint er frá vísindaleiðangri skipsins. Þar bloggar vísindakonan Breton Frazer um komu þyrlunnar og þær hetjudáðir sem unnar voru.

Hún sagðist í fyrstu ekki hafa búist við miklu en síðan hafi hún gert sér grein fyrir því að þarna væri um alvöru björgunaraðgerð að ræða. Frazer lýsir með dramatískum hætti hvernig þyrlan sveimaði yfir þilfarinu. Síðan hafi appelsínugulklædd björgunarhetja svifið niður. Hún segist hafa orðið afbrýðisöm út í hinn meidda bátsmann og leitað logandi ljósi að einhverju til að fótbrjóta sig með. Hún vildi fá að vera í hans sporum og láta draga sig upp í þyrluna.

Hetjur háloftanna á Gná eru þeir Jan Allebo flugstjóri, Lárus Helgi Kristjánsson flugmaður, Thorben Lund stýrimaður/sigmaður, Sverrir Erlingsson flugvirki/spilmaður og Hlynur Þorsteinsson læknir. Þeir verða sjálfsagt ekki leiðir við það að lesa þessa frásögn segir á vef Landhelgisgæslunnar.

Knorr hefur verið við hafrannsóknir á Reykjaneshrygg síðan 15. júní. Skipið er nokkuð þekkt því að vísindamennirnir sem fundu flakið af Titanic árið 1985 sigldu Knorr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×