Íslenski boltinn

Ekki færri áhorfendur síðan í maí

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pálmi Rafn Pálmason skallar að marki í leik Vals og ÍA í gær. Dario Cingel er honum til varnar.
Pálmi Rafn Pálmason skallar að marki í leik Vals og ÍA í gær. Dario Cingel er honum til varnar. Fréttablaðið/Vilhelm

Sextánda umferð Landsbankadeildar karla er sú næst minnst sótta af áhorfendum hingað til. Aðeins þriðja umferðin sem fór fram þann 24. maí fékk færri áhorfendur.

Leikur KR og HK fékk flesta áhorfendur eða 1.477 talsins. Fæstir komu á leik Keflavíkur og Víkings, samtals 640 manns.

Næsta umferð, sú sautjánda, ætti með öllu réttu að slá öll met. Þar mætst sömu lið og mættust í áttundu umferð fyrr í sumar en það er mest sótta umferðin frá upphafi Íslandsmótsins. 8.404 áhorfendur komu á leikina fimm þá. Er það í eina skiptið sem meira en átta þúsund manns koma á leiki einnar umferðar.

Meðal leikja næstu umferðar er sú eina innbyrðis viðureign sem eftir er hjá þeim fjórum liðum sem enn geta fallið. Það er leikur Fram og KR á Laugardalsvellinum. Þá er einnig á dagskrá Kópavogsslagur HK og Breiðabliks.

Þá er ótalinn sjálfur úrslitaleikur Íslandsmótsins í sumar, leikur FH og Vals á Kaplakrikavelli.

Alls hafa 103.613 áhorfendur komið á leikina áttatíu í Landsbankadeild karla í sumar. Tíu leikir eru eftir á dagskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×