Innlent

Dæmdur fyrir að stinga lögregluna af á mótorhjóli

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í dag karlmann til að greiða 350 þúsund krónur í sekt og svipti hann ökuréttindum í hálft ár fyrir margvísleg umferðarlagabrot bæði á bílum og mótorhjóli. Hann var meðal annars sakfelldur fyrir að stinga lögregluna af á Suðurlandsvegi.

Alls voru ákæruliðirnir á hendur manninum tíu talsins og meðal annars ákært fyrir hraðakstur í nokkrum þeirra, reykspólun, fyrir að vera með ógreinilega skráningaplötu á bifhjóli og fyrir að brjóta rúðu á lögreglustöð þegar hann skellti þar hurð.

Maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa ekið á ofsahraða í fyrrasumar á Suðurlandsvegi en þar sinnti hann ekki stöðvunarmerkjum lögreglu í Hveradalabrekku heldur stakk hana af. Ók hann austur að Ingólfshvoli þar sem annar lögreglubíll hugðist stöðva hann en hann sneri þá við og ók í átt að Hveragerði þar sem lögregla hafði lagt tveimur bílum þversum á veginum til að stöðva för hans. Ók hann þá inn vegarkafla að Völlum í Ölfusi og fór með hjólið inn í bílskúr við hús þar og fór sjálfur inn í húsið. Fann lögregla hann þar.

Þótti dómnum sannað út frá vitnisburði lögreglumanna að maðurinn hefði gerst sekur um ofsaakstur, eða ekið á yfir 140 kílómetra hraða, og sömuleiðis að hann hefði ekki sinnt stöðvunarmerkjum lögreglu.

Maðurinn var hins vegar sýknaður af ákæru um rúðubrot vegna slaks málatilbúnaðar en hann viðurkenndi alls fimm brotanna. Enn fremur var hann sakfelldur fyrir þrjá aðra ákæruliði sem sneru að staðsetningu númeraplötu á bifhjólinu.

Maðurinn á að baki langan sakaferil og var tekið tillit til þess við ákvörðun refsingar. Þarf hann að sæta 22 daga fangelsi ef hann geiðir ekki 350 þúsund króna sekt sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×