Innlent

Stutt flugbraut skapar aukakostnað

Flugfélagið Norðanflug sér fram á verulegan aukakostnað við fraktflug til Belgíu vegna þess hve flugbrautin á Akureyri er stutt. Að óbreyttu þarf hver fulllestuð vél að millilenda í Keflavík á leiðinni út.

Norðanflug sem er að miklu leyti í eigu Samherja hyggst hefja beint flug með fisk frá Akureyri í vor. Félagið hefur hug á vél af sérstakri gerð en sá galli fylgir gjöf Njarðar að flugbrautin á Akureyri er of stutt til að hægt sé að nota vélina með góðu móti. Til þess að hægt sé að taka á loft á Akureyri með vélina fulla af eldsneyti og fulllestaða þarf að millilenda í Keflavík á leiðinni til Belgíu.

Unnar Jónsson, yfirmaður flutningasviðs hjá Samherja, segir þetta súrt í broti og muni að óbreyttu kosta félagið verulegar fjárhæðir aukalega eða hundruð þúsunda fyrir hverja millilendingu í Keflavík. Þetta dæmi sýni hve mikilvægt sé að lenging flugbrautarinnar verði sett inn á samgönguáætlun svo framkvæmdir geti hafist hið fyrsta. Unnar bendir á að Iceland Express hafi ekki getað notað þær vélar sem þeir höfðu augastað á í Akureyrarfluginu vegna flugbrautarinnar og skilyrða til flugtaka. Því sé um mjög mikilvæga hagsmuni að ræða sem varði atvinnulíf svo sem ferðaþjónustu og sjávarútveg.

Kristján Möller sem situr í samgöngunefnd fyrir Samfylkinguna hefur lýst í samtölum við Stöð 2 sérstökum áhyggjum af þessu en margir berjast um hituna. Á flugvellinum á Egilsstöðum er einnig krafa um samgönguframkvæmdir en það mun skýrast mjög bráðlega hvað Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, afræður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×