Lífið

Jolie ættleiðir í Víetnam

jolie Angelina Jolie yfirgefur munaðarleysingjahælið í Víetnam. Hún hefur nú ættleitt sitt þriðja barn.
jolie Angelina Jolie yfirgefur munaðarleysingjahælið í Víetnam. Hún hefur nú ættleitt sitt þriðja barn. MYND/AP

Ættleiðing leikkonunnar Angelinu Jolie á þriggja ára dreng frá Víetnam er gengin í gegn. Jolie sótti drenginn á munaðarleysingjahælið þar sem hann bjó og fylgdust fjölmiðlar með hverju fótmáli hennar. Með henni í för var fimm ára sonur hennar Maddox.

Tuttugu börn tóku á móti þeim á hælinu klædd víetnömskum þjóðbúningum. Að sögn forstöðumanns hælisins var stundin þegar Jolie náði í drenginn afar tilfinningarík. „Þau reyndu að vingast við víetnamska drenginn, sem grét þegar hann sá þau vegna þess að þau eru ókunnugt fólk í hans augum,“ sagði forstöðumaður hælisins. „Jolie gat varla haldið aftur af tilfinningum sínum. Þau reyndu bæði að hugreysta þennan litla dreng.“

Jolie og Pitt heimsóttu munaðarleysingjahælið í Víetnam í nóvember síðastliðnum þar sem þau komu auga á drenginn. Hafði hann verið yfirgefinn fljótlega eftir að hann fæddist og hafði búið á munaðarleysingjahælinu allar götur síðan.

Talið er að víetnömsk yfirvöld hafi fengið beiðnina um ættleiðinguna í byrjun mars og því er ljóst að leikaraparið fræga fékk sannkallaða flýtimeðferð þar í landi. Venjan er að ættleiðingar taki allt að hálft ár en ef bakgrunnur þeirra sem óska eftir ættleiðingunni er í lagi og góð fjárhagsstaða er til staðar, er hægt að flýta ferlinu. Jolie sótti um ættleiðinguna sem einstæð móðir vegna þess að hún hefur enn ekki gengið í hjónaband með Brad Pitt.

Jolie, sem er 31 árs, hefur áður ættleitt tvö börn, annað frá Kambódíu og hitt frá Eþíópíu, þau Maddox og Zahöru. Á síðasta ári eignaðist hún síðan dótturina Shiloh Nouvel Jolie-Pitt með kærasta sínum, leikaranum Brad Pitt. Jolie og Pitt eiga nú fjögur börn og spurningin er hvort þeim eigi eftir að fjölga eitthvað eða hvort þau ætli nú að láta staðar numið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.