Innlent

Miðdalsheiði áratugi að jafna sig eftir sinubruna

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Búast má við að það taki svæðið sem brann á Miðdalsheiði á Hengilsvæðinu í gær áratugi að jafna sig. Hátt í áttatíu manns börðust við sinueldana fram á nótt.

Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins tókst að ráða niðurlögum sinubrunans um klukkan tvö í nótt. Þá höfðu sjötíu og fimm slökkviliðs- og björgunarsveitarmenn ásamt starfsmönnum borgarinnar barist við eldana í hátt í tólf klukkutíma. Aðstæður til slökkvistarfs voru mjög erfiðar en svæðið er að mestu þakið mosa og lyngi. Þar sem mjög þurrt var í gær logaði glatt.

Svæðið sem varð eldinum að bráð er um fimmtán hektarar. Borgþór Magnússon, forstöðumaður Vistfræðideildar Náttúrufræðistofnunar Íslands, skoðaði svæðið í gær og segir hann ljóst að tekið geti áratugi fyrir svæðið að ná sér aftur þar sem það sé mjög ófrjótt. Mosinn á svæðinu sé mjög viðkvæmur og það taki hann langan tíma að jafna sig.

Hann segir sinubrunann í gær mjög ólíkan þeim sem var í fyrra á Mýrum í Borgarfirði. Eldarnir á Mýrum voru þeir stærstu sem um getur í Íslandssögunni. Náttúrufræðistofnun hefur gert ítarlega rannsókn á áhrifum þeirra. Borgþór segir svæðið þar hafa jafnað sig nokkuð vel og fuglalíf síður en svo minna en fyrir eldana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×