Innlent

Gamla varnarsvæðið þrískipt

Þrír aðilar fara með forræði á gamla varnarsvæðinu en í Utanríkisráðuneytinu og Dómsmálaráðuneytinu virðast menn ekki vera með það á hreinu hvaða hlutar svæðisins eru á forræði hvers. Svæðinu var skipt í þrjú svæði þegar íslensk stjórnvöld tóku við því af varnarliðinu.

Svæði A er flugvallarsvæðið sjálft og heyrir það undir flugmálastjórn. Svæði B er svokallað öryggissvæði en það er jaðarsvæðið kringum flugvallarsvæðið og heyrir undir Utanríkisráðuneytið. Svæði C er síðan allt land og allar aðrar byggingar en þær sem eru á svæði A og B og utan um það svæði var stofnað sérstakt félag, Þróunarfélagið. Tólf öryggisverðir sáu áður um að gæta alls svæðisins.Nú hefur Þróunarfélagið boðið út öryggisgæslu á svæði C og þarf því ekki á gæslu frá sýslumannsembættinu á Keflavíkurflugvelli að halda. Eins hefur Utanríkisráðuneytið ákveðið að ekki þurfi nema 3 starfsmenn í að gæta öryggissvæðisins. Í þessu virðist miskilningur utanríkisráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins byggjast. Fram að áramótum heyrði þessi öryggisgæsla undir Utanríkisráðuneytið en við áramót færðist sýslumannsembættið og starfsmenn þess undir dómsmálaráðuneytið. Því störfuðu öryggisverðirnir ekki lengur hjá utanríkisráðuneytinu og voru því á forræði sýslumannsembættisins þegar þeim var sagt upp. Á hitt ber að líta að uppsagnirnar eru tilkomnar vegna þess að utanríkisráðuneytið óskaði ekki lengur eftir þjónustu þessara 12 öryggisvarða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×