Lífið

Audda og Huga úthýst úr þýskri handboltahöll

Adolf Ingi segir Audda og Huga hafa brotið allar hugsanlegar reglur um framgöngu fjölmiðlamanna á HM.
Adolf Ingi segir Audda og Huga hafa brotið allar hugsanlegar reglur um framgöngu fjölmiðlamanna á HM.
„Þetta er ekki héraðsmót heldur heimsmeistarakeppnin í handbolta í Þýskalandi,“ segir Adolf Ingi Erlingsson, íþróttafréttamaður Ríkissjónvarpsins, þegar hann lýsir framgöngu Huga og Audda sem hneykslanlegri.

Þeir Hugi Halldórsson og Auðunn Blöndal segja hins vegar farir sínar ekki sléttar á HM í Þýskalandi og saka íþróttafréttamanninn Adolf Inga Erlingsson um að hafa gengið erinda þýskrar yfirstjórnar í að meina þeim að taka upp efni fyrir stuðningmannaklúbbinn Í blíðu og stríðu.

Hugi gengur svo langt að segja framgöngu Adolfs hreinlega hafa orðið til þess að þeir hafi ekki getað sinnt sínu starfi, þeim hafi verið úthýst og ekki náð að taka upp neitt efni á vef stuðningsmanna eftir leik Íslands og Úkraínu.

Hugi segist hafa vitað að þeir gætu ekki farið inn með myndavél á leik Íslands og Ástralíu þar sem þeir voru ekki með þar til gerða passa.

„Við fengum Adolf því til að smygla henni inn,“ segir Hugi. Þegar leikurinn við Ástralíu á laugardeginum kláraðist náði Hugi í vélina og þeir hófust handa við að taka upp. „Þegar Adolf sá hvað var á seyði kom hann og húðskammaði okkur,“ segir Hugi og heldur því fram að Adolf hafi í kjölfarið tilkynnt þá til hæstráðanda Sportfive sem á sjónvarpsréttinn að mótinu og hann hafi komið í veg fyrir frekari upptökur af þeirra hálfu.
Hugi og Auddi Telja Adolf Inga hafa átt sinn þátt í því að þeim var meinað að taka upp viðtöl fyrir „Í blíðu og stríðu“.
Þegar Fréttablaðið náði tali af Adolfi Inga hafnaði hann því alfarið að hafa staðið fyrir því að Audda og Huga var meinaður aðgangur. En er ómyrkur í máli þegar hann lýsir framgöngu „strákanna hinna“. Segir þá hafa orðið sér til skammar og brotið allar hugsanlegar reglur um framgöngu fjölmiðla á mótinu. Meðal annars með því að fara inn á bannsvæði. Fjölmargir hafi hneykslast auk sín.

„Yfirmaður Sportfive kom að máli við mig og vildi vita hvort þeir störfuðu á vegum RÚV,“ segir Adolf.„Ég þverneitaði fyrir það enda hefði þetta getað komið okkur ákaflega illa. En ég sýndi þeim síðuna sem strákarnir starfa fyrir. Þar gat hann séð hvað þeir voru að gera og fyrir hvern. Mér finnst þetta auðvitað leiðinlegt fyrir stuðningsmannaklúbbinn en menn geta ekki komið hingað út og hagað sér eins og þeir vilja.“

Fjalar Sigurðsson hjá stuðningsmannaklúbbnum „Í blíðu og stríðu“ viðurkennir að ferð þeirra félaga hafi verið ákveðin með of stuttum fyrirvara og þarna hafi verið gerð ákveðin mistök. Hann segir stuðningsmannafélagið hafa átt í góðu samstarfi við RÚV.

„Við vissum að þeir fóru þangað án réttu pappíranna og að því gæti farið svona,“ segir Fjalar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.