Innlent

Öllum starfsmönnum skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins sagt upp

Öllum sex fastráðnum starfsmönnum Skíðasvæða höfuðborgarsvæðinsins hefur verið sagt upp störfum í kjölfar rekstarúttektar á starfseminni. Að sögn Önnu Kristinsdóttur, formanns stjórnar skíðasvæðanna, var ráðist í úttektina í haust og henni skilað eftir áramót.

Niðurstaða hennar sé sú að fara verði ákveðnar skipulagsbreytingar á rekstri skíðasvæðanna. Anna segir að sex manns hafi verið í fullu starfi hjá skíðasvæðunum allan ársins hring og þeim hafi nú verið sagt upp. Unnið verði að skipulagsbreytingum á svæðinu á næstu tveimur til þremur mánuðum og einhverjir starfsmannanna ráðnir aftur ef þeir vilji. Hún viti þó ekki hversu mörgum verði boðin störf aftur.

Aðspurð hvort snjóaleysi síðustu ára hafi haft sitt að segja við ákvörðunina segir Anna að það sé hluti af skýringunni. Hún sagði þó að rekstur yrði áfram í Skálafelli og Bláfjöllum að öllu óbreyttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×