Innlent

Bensínverðshækkanir í kjölfar hækkunar á heimsmarkaði

Olíufélögin eru farin að hækka bensínverð eftir snarpa hækkun á heimsmarkaði síðustu vikurnar.

Olíufélagið Skeljungur hækkaði bensín- og gasolíuverð í gær. Bensínverðið um tvær krónur lítrann og dísillítrann um eina og tuttugu. Bensínlítrinn hjá Shell fór í 118 krónur með fullri þjónustu og dísilolían er 70 aurum dýrari. Olís fylgdi í kjölfarið með sambærilegar hækkanir en Esso og Atlantsolía hafa ekki hækkað enn.

Fastlega er þó reiknað með að þau fylgi fordæmi Skeljungs og Olís. Tonnið af bensíni kostaði 500 dollara á Rotterdammarkaði um síðustu mánaðamót en var komið upp í 590 dollara í gær þannig að hækkunin endurspeglar ekki þá hækkun.

Skýringin er að krónan hefur verið að styrkjast gagnvart dollara á sama tíma og hefur það slegið á hækkunina þar sem olíuviðskiptin fara fram í dollurum. Til samanburðar hefur bensínlítrinn hækkað um fimm til sex krónur íslenskar í þessum mánuði en danska krónan hefur ekki hækkað gagnvart dollar á tímabilinu eins og sú íslenska.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×