Innlent

FL Group og Glitnir í tugmiljarðafjárfestingar í grænni orku

FL Group, Glitnir og verkfræðistofan VGK-Hönnun hafa stofnað fjárfestingarfélagið Geysir Green Energy sem hefur það að markmiði að fjárfesta í verkefnum tengdum sjálfbærri orkuframleiðslu víðs vegar um heim.

FL Group mun verða leiðandi hluthafi í félaginu en í upphafi leggja fjárfestar fram 100 milljónir bandaríkjadala eða um 7 milljarða króna með peningum og eignum sem falla að fjárfestingastefnu félagsins. Auk Glitnis og VGK-Hönnunar er gert ráð fyrir að hlutafé verði selt til innlendra og erlendra aðila á næstu vikum og mun fyrirtækjaráðgjöf Glitnis annast sölu hlutafjárins.

Fram kemur í tilkynningu frá hinu nýja félagi að fyrirtækið muni einbeita sér að tækifærum í nýtingu jarðvarma, fjárfestingum í þróun og byggingu jarðvarmaorkuvera, annast yfirtöku á jarðvarmaorkuverum í eigu orkufyrirtækja og taka þátt í einkavæðingu orkufyrirtækja þar sem tækifæri gefast. Miðað er við að félagið geti ráðist í fjárfestingar sem nema meira en einum milljarði bandaríkjadala eða 70 milljörðum króna.

Hefur Ásgeir Margeirsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Orkuveitu Reykjavíkur, verið ráðinn forstjóri félagsins og mun hann vinna að uppbyggingu félagsins og stýra fjárfestingum þess.

„Talið er að orkuþörf jarðarbúa muni tvöfaldast á næstu 50 árum og mun hlutfall sjálfbærrar orkuframleiðslu aukast á kostnað hefðbundnari orkugjafa. Evrópusambandið stefnir á 50% aukningu sjálfbærrar orkuframleiðslu fyrir árið 2020 og Bandaríkin hyggjast tvöfalda sjálfbæra orkuframleiðslu á næstu 10 árum, meðal annars með viðamikilli uppbyggingu jarðvarmavirkjana. Samkeppnishæfni jarðvarma er mjög mikil en beislun hans til raforkuframleiðslu hefur hlutfallslega mun lægri kostnað í för með sér en til dæmis nýting sólarorku," segir í tilkynningu Geysis.

Spennandi tímar framundan
Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysir Green Energy. Ásgeir er jafnfram stjórnarformaður Enex og Enex Kína.MYND/Vefur Enex

Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysis segir, að með stofnun Geysis verði til mjög öflugt fjárfestingarfélag í orkuiðnaði. Tækifærin framundan séu óþrjótandi og þegar saman koma kraftar þeirra sem þekkinguna hafa annars vegar og fjármagnið hins vegar, verði leyst úr læðingi mikil orka.

Hannes Smárason, forstjóri FL Group segir þetta spennandi nýjung fyrir FL Group. Með því að stilla saman strengi ólíkra aðila, geti íslensk fyrirtæki náð sterkri stöðu á alþjóða orkumörkuðum

Runólfur Maack, framkvæmdastjóri VGK-Hönnunar, segir að með stofnun Geysis sé sameinuð sú tækniþekking sem er til staðar á Íslandi og hins vegar hæfni á sviði alþjóðlegra fjárfestinga og segir mjög spennandi tíma framundan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×