Enski boltinn

Jóhannes Karl hæstánægður með sitt fyrsta mark hjá Burnley

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jóhannes Karl skorar hér markið sitt í gær. Gavin Mahon, leikmaður Watford, kemur engum vörnum við.
Jóhannes Karl skorar hér markið sitt í gær. Gavin Mahon, leikmaður Watford, kemur engum vörnum við. Nordic Photos / Getty Images

Jóhannes Karl Guðjónsson var hetja Burnley sem vann Watford, 2-1, í ensku 1. deildinni í gær. Hann kom inn á sem varamaður og skoraði síðara mark liðsins.

„Þetta var frábært mark sem kom okkur í tveggja marka forystu. Það var mikilvægt,“ sagði Jóhannes Karl. „Það er aldrei auðvelt að halda í eins marks forystu gegn liði sem gefst aldrei upp. “ 

Hann lýsti síðan markinu sem hann skoraði. „Robbie Blake gaf frábæra sendingu á mig og var það afar vel lesið hjá honum að sjá mig í þessari stöðu. Það eina sem ég hugsaði um var að skora, ég varð að koma okkur í 2-0.“ 

Fyrir tæpri viku síðan var Owen Coyle ráðinn knattspyrnustjóri Burnley en Jóhannes Karl fékk hefur undanfarið fá tækifæri fengið þegar liðið var undir stjórn Steve Cotterill. 

„Svo virðist sem að stjórinn vilji gefa mér tækifæri til að sýna mig. Ég fékk að spila í tíu mínútur á móti Stoke og svo kom ég inn á í hálfleik í þessum leik vegna meiðsla annarra leikmanna. Hann hefur trú á mér og vil ég gjarnan endurgjalda honum traustið. Ég vona að stuðningsmenn Burnley fái að sjá mun meira af mér inn á vellinum í framtíðinni.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×