Innlent

Það getur hent alla að lenda í aðstæðum sem þeir ráða ekki við

Lögregla rannsakar aðdraganda voðaverkanna í gær þegar maður skaut annan til bana og svifti sig síðan lífi. Sérfræðingur í áfallahjálp segir að það geti hent alla á lífsleiðinni að lenda í aðstæðum sem þeir ráði ekki við, en þá sé mjög mikilvægt að þeim einstaklingum sé veitt aðstoð.

Lögreglan kallaði voðaverkið á Sæbraut og þau atvik sem fylgdu í kjölfarið harmleik í gær og því er ljóst að margir eiga um sárt að binda.

Hinn myrti átti í sambandi við fyrrverandi eiginkonu þess sem framdi voðaverkið en í DV í dag er fullyrt að árásarmaðurinn hafi meðal annars verið illa haldinn af svefnleysi og djúpu þunglyndi vegna skilnaðarins. Sérfræðingur í áfallahjálp segir að það sé gríðarlega mikilvægt að þeir sem glími við áföll og alvarlega afbrýðisemi leiti sér hjálpar.

Lögreglan segir að ökumaður sendibílsins, sem kom hinum myrta til hjálpar, hafi verið mjög sleginn. Starfsmenn Laugardalslaugar sem reyndu að bjarga hinum látna þáðu áfallahjálp. Það eru margir sem hafa þurft að fá aðstoð frá fagaðilum vegna þessa máls.

Ýmsar getgátur eru um atburðarásina í þessu máli en rannsókn lögreglunnar beinist nú að skotvopninu og meðal annars að því hvernig það er fengið.

Að sögn Friðriks Björnssonar yfirlögregluþjóns í rannsóknardeild beinist rannsóknin einnig að atburðarásinni og að því að kanna hver samskipti árásarmannsins og hins myrta voru áður en til árásarinnar kom.

Margt þykir benda til þess að árásarmaðurinn hafi elt hinn myrta áður en hann beitti skotvopninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×