Innlent

Hann bjargaði lífi dóttur minnar

Sighvatur Jónsson skrifar

Hann bjargaði lífi dóttur minnar, segir móðir stúlkunnar sem ráðist var á með hrottafengnum hætti fyrir utan skemmtistaðinn Sólon um helgina, og vísar þar til sjónarvotts sem kom stúlkunni til hjálpar. Stúlkan, sem var meðal annars bitin á eyra, liggur enn á sjúkrahúsi, en hún undirgekkst aðgerð í gær.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var rætt við Kristmund Anton Jónasson, sem varð vitni að árásinni í biðröð fyrir utan skemmtistaðinn Sólon aðfaranótt sunnudags. Hann sagði að árásin hafi verið mjög grimmileg.

Þrjár konur á tvítugsaldri réðust á hóp þriggja kvenna. Sérstaklega var hart gengið að einni þeirra, tuttugu og sjö ára tveggja barna móður, sem var dregin á hárinu á gangstéttinni og bútur bitinn af eyra hennar.

Móðir stúlkunnar segir í dag að Kristmundur og tveir aðrir strákar sem komu dóttur hennar til hjálpar, hafi sannarlega bjargað lífi hennar. Ein árásarkvennanna hélt dóttur hennar niðri og beit hana, meðan önnur stóð og sparkaði í hana.

Konan sem ráðist var á fór í aðgerð á eyra í gær og liggur enn á sjúkrahúsi. Eins og alltaf þegar um mannabit er að ræða er hætta á sýkingu, og því vel fylgst með konunni.

Líkt og sjónvarvotturinn sagði í fréttum í gær, gerir móðir stúlkunnar athugasemd við að dóttir hennar hafi verið ekið á slysadeild alblóðugri í lögreglubíl, þar sem enginn sjúkrabíll hafi verið sendur á vettvang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×