Innlent

ASÍ vísar gagnrýni Samtaka Atvinnulífsins á bug

Verðlagseftirlit ASÍ vísar gagnrýni Vilhjálms Egilssonar formanns SA á hendur stofnuninni á bug.

Vilhjálmur sagði í bréfi til Geirs H. Haarde forsætisráðherra að hann teldi eðlilegast að Hagstofa Íslands færi með verðlagseftirlit í samstarfi við hagsmunaaðila.

Þá gagnrýndi hann vinnubrögð Alþýðusambandsins og sagði þau óvönduð bæði hvað varðar vinnslu gagna og framsetningu á niðurstöðum.

Í tilkynningu frá Grétari Þorsteinssyni forseta ASÍ segir hann að verðlagseftirlitið í núverandi mynd hafi verið sett á laggirnar að ósk ríkisstjórnarinnar árið 2001 vegna meints samráðs um verðlagningu grænmetis. Ríkisstjórnin hafi síðan ítrekað undirstrikað mikilvægi þess, nú síðast með því að gera við það samning um eftirlit með lækkun matvælaverðs í kjölfar lækkunar á virðisaukaskatti á matvælum og afnámi vörugjalda.

Grétar segir það ekki rétt hjá Vilhjálmi að ASÍ fái 30 milljónir af opinberu fé til reksturs verðlagseftirlitsins. Reksturinn segir hann að mestu á ábyrgð sambandsins. Þá segir hann samtökin að sjálfsögðu vera tilbúið til að ræða ráðstöfun þeirra fjármuna sem það fái, líkt og Vilhjálmur leggur til.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×