Innlent

Lagði fram gögn af bloggsíðu Jónínu Benediktsdóttur

Jónína Benediktsdóttir í Héraðsdómi í morgun.
Jónína Benediktsdóttir í Héraðsdómi í morgun. MYND/Stöð 2

Nú er ljóst að fjórir lögreglumenn sem unnu að rannsókn Baugsmálsins koma í vitnastúku í málinu í dag en upphaflegar áætlanir gerður ráð fyrir ellefu vitnum. Verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar lagði í morgun fram gögn af bloggsíðu Jónínu Benediktsdóttur en hún er hópi þeirra vitna sem áttu að koma fyrir dóminn í dag.

Skýrslutaka af Arnari Jenssyni, fyrrverandi aðstoðaryfirlögregluþjóni hjá efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra, hefur staðið í allan morgun en þar hefur hann svarað spurningum Sigurðar Tómasar Magnússonar, setts saksóknara, og Gests Jónssonar, verjanda Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Upphaflegar áætlanir gerður ráð fyrir að skýrslutaka af honum tæki rúman hálftíma en annað hefur komið á daginn.

Eftir hádegishlé er svo komið að Jakob Möller, verjanda Tryggva Jónssonar, að spyrja Arnar og er reiknað með að það taki um hálftíma. Þar á eftir kemur svo Sveinn Ingiberg Magnússon sem einnig tók þátt í rannsókn Baugsmálsins. Á eftir honum er svo komið að fyrrverandi yfirmanni efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra, Jóni H. B. Snorrasyni, og þar á eftir kemur lögreglumaðurinn Grímur Grímsson.

Gestur Jónsson lagði við upphaf yfirheyrslna í dag fram gögn af bloggsíðu Jónínu Benediktsdóttur en hún hóf nýverið að blogga á bloggsvæði Morgunblaðsins. Ekki kom fram um hvað bloggfærslan snerist en það kemur væntalega í ljós þegar Jónína kemur fyrir dóminn á föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×