Innlent

Líknardeild Landspítalans verði á sama stað og áður

Starfandi forstjóri Landspítalans vísar því alfarið á bug að ekki sé gert ráð fyrir öldruðum á nýju háskólasjúkrahúsi. Bráðadeild fyrir aldraða verði í fyrsta áfanga byggingarinnar en langtíma endurhæfiingardeild verði að öllum líkindum byggð seinna. Ákveðið hafi verið að hafa líknardeildina ekki í nýju byggingunnni og því verði hún á sama stað og áður.

Helga Hansdóttir yfirlæknir öldrunarmála á Landspítalanum sagði í Fréttum Stöðvar 2 fyrr í vikunni að ekki væri gert ráð fyrir öldruðum, fötluðum eða deyjandi sjúklingum í líknarmeðferð á nýju háskólasjúkrahúsi. Anna Stefánsdóttir hjúkrunarforstjóri og starfandi forstjóri Landspítalans vísar þessu alfarið á bug og segir fullyrðingar Helgu ekki réttar. Jafn mikið sé gert ráð fyrir öldruðum á nýju sjúkrahúsi eins og öðrum sjúklingum. Í fyrsta áfanga byggingarinnar verði bráðadeild öldrunarlækninga.

Alfreð Þorsteinsson formaður Framkvæmdanefndar um bygginu nýs háskólasjúkrahúss sagði í samtali við fréttastofu að til væri lóð fyrir langtíma endurhæfingadeild aldraða. Bygging þeirrar deildar verði metin í öðrum eða þriðja áfanga framkvæmda. Ákveðið hafi verið að líknardeild verði ekki í nýju byggingunni þar sem talið sé betra að hafa hana óbreytta í Kópavoginum á rólegri stað. Anna segir aldraða vera meirihluta sjúklinga á spítalanum og aðstaða sé fyrir þá á öllum deildum eftir viðeigandi sjúkdómum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×