Innlent

Átta mótmælendur handteknir við Hellisheiðarvirkjun

Lögreglan hefur handtekið átta mótmælendur á vegum samtakanna Saving Iceland við Hellisheiðarvirkjun. Fólkið hafði stöðvað alla umferð að virkjuninni með því að hlekkja sig við bíla á báðum afleggjurum. Mótmælum er að mestu lokið að sögn lögreglu.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi er aðeins einn mótmælandi eftir á svæðinu. Sá var búinn að klifra upp í byggingarkrana við virkjunina og hengja þar upp mótmælaborða. Lögreglan vinnur nú í því að ná manninum niður og verður hann síðan væntanlega handtekinn.

Fjölmennt lið frá lögreglunni á Selfossi og á höfuðborgarsvæðinu kom á vettvang í morgun þegar mótmælin hófust.

Í tilkynningu frá samtökunum segjast þau vera að mótmæla stækkun virkjunarinnar, óheiðarlegum viskiptaháttum Orkuveitu Reykjavíkur og tengslum hennar við stríðsrekstur með því að leggja álverum til rafmagn, en þau framleiði ál til hergagnagerðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×