Innlent

Matís leitar að óþekktum örverum

Matís tekur nú þátt í rannsóknum á lífríki lónsins í Skaftárkötlum sem hafa það að markmiði að finna óþekktar örverutegundir sem má nota í líftækni. Sérstakur bræðslubor var notaður til að bora í gegnum þrjúhundruð metra þykka íshellu til að komast að lóninu. Aðstæður eru einstakar, því lón undir íshellu jökla eru mjög sjaldgæf og þar má finna mjög einangruð og vel varðveitt vistkerfi.

Í fréttatilkynningu frá Matís segir að ætlunin sé að nýta að mestu sameindalíffræðilegar aðferðir til greiningar á örveruflóru ketilsins og má jafnvel vænta þess að finna þar áður óþekktar tegundir örvera sem hægt verður að rannsaka frekar og nota í líftækni.

Síðastliðin tvö sumur hafa farið fram umfangsmiklar rannsóknir í Skaftárkötlum á Vatnajökli. Um er að ræða samstarfsverkefni nokkurra innlendra og erlendra fyrirtækja og stofnana, þar á meðal Matís, Orkustofnunar, Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar HÍ, University of Hawaii og Montana State Univeristy, þar sem Þorsteinn Þorsteinsson hjá Orkustofnun hefur haft yfirumsjón með skipulagningu verkefnisins.

Á síðasta ári voru gerðar mælingar og borað í niður í vestari Skaftárketilinn og mikilvæg reynsla þeirrar ferðar nýtt í ár við borun í eystri katlinum. Rannsóknaleiðangurinn var farinn dagana 1. - 9 júní og mælingar gerðar á eystri Skaftárkatlinum og tók Árni Rafn Rúnarsson starfsmaður örverurannsókna Matís þátt í leiðangrinum og hafði umsjón með sýnatöku til rannsókna á örveruflóru lónsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×