Innlent

Bútur bitinn af eyra konu fyrir utan skemmtistað

Sighvatur Jónsson skrifar

Tuttugu og sjö ára kona varð fyrir hrottafenginni líkamsárás þriggja kvenna um tvítugt, í biðröð við skemmtistaðinn Sólon í miðborginni á þriðja tímanum í nótt. Hún var dregin á hárinu eftir gangstéttinni, sparkað í hana og stór bútur bitinn af eyra hennar, að sögn sjónarvotta.

Konan var í biðröð fyrir utan skemmtistaðinn Sólon í miðborg Reykjavíkur, með vinkonu sinni og frænku. Þetta var í fyrsta skiptið sem konan fór út að skemmta sér eftir að hún eignaðist son fyrir sex mánuðum.

Ein árásarkvennanna þriggja kastaði bjórflösku í frænku konunnar. Þegar konan gerði athugasemd við það, var ráðist á hana.

Kristmundur Anton Jónasson, sjónarvottur, segir að hann hafi getað tafið fyrir einni árásarkonunni, sem var svo færð á lögreglustöð og sleppt að lokinni yfirheyrslu.

Kristmundur segist hafa leitað eftir aðstoð frá einum dyravarða Sólons, en sá sagði að þeir skiptu sér ekki af því sem gerðist fyrir utan staðinn.

Konan sem ráðist var á, fór í aðgerð á eyra í dag, á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Henni var mjög brugðið og mun hún fá áfallahjálp í kjölfarið. Ásamt eyrnabitinu var hún dregin á hárinu eftir gangstéttinni og sparkað var í hana. Mun verr hefði getað farið ef henni hefði ekki verið komið til hjálpar af Kristmundi og fleirum á vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×