Innlent

Íslendingur stunginn í lærið á Benidorm

Benedikt og félagar hans dveljast á Benidorm á Spáni.
Benedikt og félagar hans dveljast á Benidorm á Spáni.

Benedikt Ívarsson, nítján ára námsmaður úr Sandgerði, komst í hann krappan síðastliðinn laugardag þegar hann var stunginn í lærið á skemmtistað á sumarleyfisdvalarstaðnum Benidorm. Hann dvaldi á spítala yfir nótt eftir að hafa verið saumaður saman. Í samtali við Vísi sagðist hann hafa það þokkalegt en taldi sig þó heppinn að hafa sloppið jafnvel og raun bar vitni.

"Það þurfti að sauma nokkur spor í lærið en annars hef ég það bara þokkalegt. Ég er haltur og finn mikið fyrir þessu en tel mig bara hafa sloppið vel. Þetta hefði getað farið miklu verr," segir Benedikt um líðan sína eftir hnífstunguna. Hann segist þó þurfa að fara í skoðun þegar hann kemur heim.

Benedikt, sem var nýkominn til Bendorm ásamt sex félögum sínum, sagðist ekki hafa hugmynd um hver árásarmaðurinn væri en taldi hann þó vera íslenskan. Hann sagðist ekki hafa gert upp hug sinn hvort hann hygðist kæra hnífstungumanninn en útilokaði það þó ekki.

"Það kom þó aldrei til greina að fara heim. Ég var alltaf ákveðinn að klára ferðina því við vorum nýkomnir. En vissulega var þetta ekki skemmtileg byrjun," segir Benedikt sem heldur upp á tvítugsafmælið sitt á miðvikudaginn, daginn áður en hópurinn heldur heim til Íslands.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×