Innlent

Birgjar boða frekari verðhækkanir á matvörum

Matvörur hækka í verði.
Matvörur hækka í verði. MYND/Valgarður G.

Hækkun íslenskra birgja á vöruverði veldur miklum vonbrigðum og rýrir ávinning neytenda af virðisaukaskattslækkunum að mati Neytendasamtakanna. Þetta kemur fram í frétt samtakanna um verðhækkanir hjá birgjum. Innflutningsfyrirtækið Danól, sem meðal annars flytur inn Merrild kaffi, hefur tilkynnt hækkanir á sumum vörutegundum um allt að 15,2 prósent. Markaðsstjóri Danól segir fyrirtækið vera bregðast við hækkun á heimsmarkaðsverði.

Danól hefur tilkynnt um hækkanir á sumum vörum sínum um 5,4 til 15,2 prósent frá og með næstu mánaðamótum. Um er ræða meðal annars Ota vörur, Quaker kornvörur og Merrild kaffi. Þá mun Gunnars Majones hækka verð á sínum vörum seinna í aprílmánuði um 7 prósent.

Á heimasíðu Neytendasamtakanna eru þessar hækkanir gagnrýndar og þær sagðar valda miklum vonbrigðum. Benda samtökin á að með þessu séu birgjar að taka ávinning neytenda af lækkun virðisaukskatts sem gekk í gegn þann 1. mars síðastliðinn. Alls hafa 37 innflutningsfyrirtæki hækkað verð á vörum sínum frá áramótum samkvæmt samantekt Neytendasamtakanna. 

Heimir Már Helgason, markaðsstjóri Danól, sagði í samtali við Vísi allar hækkanir koma sér illa en að fyrirtækinu hafi verið nauðugur einn kosturinn. „Við erum búnir að fá á okkur miklar hækkanir frá erlendum birgjum frá áramótum. Þá hefur heimsmarkaðsverð á kaffi hækkað að undanförnu og við verðum að bregðast við því."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×