Enski boltinn

Nærbuxnafagn Ireland til skoðunar

Stephen Ireland er hér með brækurnar á hælunum í gærkvöldi
Stephen Ireland er hér með brækurnar á hælunum í gærkvöldi AFP

Vandræðagemlingurinn Stephen Ireland hjá Manchester City gæti átt yfir höfði sér refsingu frá aganefnd enska knattspyrnusambandsins eftir að hann leysti niður um sig buxurnar þegar hann fagnaði sigurmarki sínu gegn Sunderland í gær.

Ireland komst í fréttirnar í sumar þegar hann kom sér hjá því að spila með írska landsliðinu með því að ljúga báðar ömmur sínar í gröfina til að hylma yfir það að kærastan hans missti fóstur.

Gleði hans var ótvíræð þegar hann skoraði sigurmarkið í gær og í fagnaðarlátunum leysti hann niður um sig stuttbuxurnar. Hann var klæddur í Superman-nærbuxur.

Sven-Göran Eriksson knattspyrnustjóri City virtist hafa lúmskt gaman af þessu uppátæki leikmannsins og segist vona að knattspyrnusambandið refsi honum ekki fyrir sýninguna.

"Ég sá fagnaðarlætin hjá honum. Súpermann - Súper mark. Kannski mun aganefndin skoða þetta, en ég vona ekki. Stephen er búinn að æfa mjgö vel og það hefur í raun komið mér á óvart hvað hann var lengi að springa út, því hann hefur gríðarlega hæfileika," sagði stjórinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×