Innlent

Öldruðum, fötluðum og deyjandi úthýst

Yfirlæknir öldrunarmála á Landspítalanum segir að ekki sé gert ráð fyrir öldruðum, fötluðum eða deyjandi sjúklingum í líknarmeðferð á nýju hátæknisjúkrahúsi. Engin skýr svör hafi fengist en ákveðið hafi verið að þessir hópar fengju ekki inni þegar lækka þurfti eina spítalabygginguna eftir grenndarkynningu. Sjúkdómar aldraðra njóta ekki sömu virðingar og sjúkdómar annarra sem veikjast, segir öldrunarlæknirinn.

Helga Hansdóttir segir að gömlu fólki hafi verið kennt um vanda Landspítalans vegna kerfisbundinna fordóma. Aldraðir séu gerðir að blóraböggli fyrir árvisst neyðarástand sem stafi af fjárskorti, biðlistum, manneklu og skorti á legurými. Félagsleg vandamál séu lægra skrifuð en læknisfræðileg og þörf fyrir hjúkrun og endurhæfingu sé ekki talin gild ástæða fyrir innlögn á bráðasjúkrahús.

Helga segir að upphaflega hafi verið samþykkt að sá hluti öldrunarlækninga sem falli ekki undir bráðaþjónustu fengi inni á lóð hátæknisjúkrahússins sem á að reisa. Nú líti svo út að öldruðum, fötluðum og deyjandi sé úthýst. Helga bendir á að öldrunardeild spítalans að Landakoti sé ekki aðgangur að tækniþjónustu spítalans nema notast við sjúkrabíla. Þar sé til að mynda engin röntgendeild yfir sumarið og stopul á veturna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×