Innlent

Sólskin og sumar á 75 ára afmæli Verkó

Verkóbúar slógu upp mikilli veislu í dag vegna sjötíu og fimm ára afmælis fyrstu verkamannabústaðanna í Reykjavík.

Fyrstu verkamannabústaðirnir sem byggðir voru á Íslandi voru við Hringbraut í Reykjavík, reistir af Byggingafélagi alþýðu eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar. Í afmælið í dag var mættur einn af frumbyggjunum sem var borinn í nýreistan verkamannabústaðinn aðeins sjö daga gamall fyrir 75 árum. Foreldrar Haralds Sigurðssonar voru þeir fyrstu sem fluttu inn í Verkó. Haraldur sagði að það hefði verið stórkostlegt að alast upp í Verkó og einelti hefði ekki þekkst á þessum árum.

Hátíðahöldin í dag fóru fram í blíðskaparveðri og risu þau hæst með skrúðgöngu frá horni Ásvallagötu og Hofsvallagötu undir gjallandi blæstri og trumbuslætti Lúðrasveitar verkalýðsins.

Íbúar og velunnarar Verkó gengu umhverfis bústaðina með viðkomu hjá styttu Héðins Valdimarssonar en hann átti drjúgan þátt í að þessi hús risu.

Verkamannabústaðirnir eru tvílyftir og mynda kærkomið skjól umhverfis leikvöll og sameiginlega grasflöt. Afmælisgestirnir voru auðvitað margir hverjir í yngri kantinum.

Í öllum alvöru afmælum eru leikir og börn á öllum aldri létu ekki sitt eftir liggja í sólskini og skjóli frá sjötíu og fimm ára gömlu steinhúsum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×