Innlent

Miklar hækkanir hjá Já

Gjald fyrir aukaskráningar í símaskránni hafa hækkað um hundrað prósent að meðaltali frá því á síðasta ári. Kvörtun hefur borist Póst- og fjarskiptastofnun á grundvelli þess að óeðlilegt sé að fyrirtæki í einokunarstöðu geti tvöfaldað gjaldskrá sína án þess að tilkynna það viðskiptavinum.

Vilji Íslendingar að símanúmer, faxnúmer og netföng séu kunngjörð svo aðrir geti haft við þá samband á auðveldan máta er þeim einn kostur búinn - að láta skrá sig í símaskrána JÁ. Eins og kunnugt er var ríkisfyrirtækið Síminn selt fyrir tveimur árum. Sama ár var símaskráin skilin frá rekstrinum í dótturfélaginu Já.

Einn af viðskiptavinum Já hafði samband við fréttastofu og var verulega ósáttur við að gjaldið sem hann greiddi fyrir skráningu í símaskrá hefði hækkað úr um þrjátíu og tveimur þúsundum króna í fyrra í yfir áttatíu þúsund á þessu ári. Skráningin hjá viðkomandi var óbreytt á milli ára og kostaði því varla meiri vinnu fyrir starfsmenn Já en að afrita og líma. Viðkomandi var ósáttur við að hafa ekki verið látinn vita um hækkunina og taldi það ótæk vinnubrögð hjá fyrrum ríkisfyrirtæki í einokunarstöðu. Viðskiptavinurinn gerði einnig athugasemd við málið hjá Verðlagseftirliti, Neytendastofu og samgönguráðuneyti.

Hjá fyrirtækinu JÁ fékkst það staðfest að gjaldskrá aukaskráninga hefði hækkað að meðaltali um hundrað prósent. Grunnskráning er ókeypis, en í henni felst nafn, heimilisfang, starfsheiti og sími.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×