Innlent

Tími Jóhönnu kominn

Jóhanna Sigurðardóttir, verðandi ráðherra velferðarmála, segist hlakka til að setjast aftur í ráðherrastól en hún sat sem félagsmálaráðherra á árunum 1987-1994. Aðspurð segir hún ráðuneytið hafa breyst mikið síðan þá og bendir á að almannatryggingarnar færist nú til þess frá heilbrigðisráðuneytinu.

Jóhanna segir þetta þungavigtarráðuneyti og að hún sé þakklát fyrir að fá tækifæri til að spreyta sig aftur í ráðuneytinu.

Jóhanna hvarf með látum úr ráðherrastól þegar hún sagði sig úr Alþýðuflokknum og stofnaði Þjóðvaka. Aðspurð hvort hún yrði þægari nú en þá sagði Jóhanna að aðstæður væru nú allt aðrar. Nú væri góð og öflug kona í brúnni í Samfylkingunni og hún vonaðist til að koma áherslum flokksins í velferðarmálum í gagnið. Þá væru fjórar konur nú í ríkisstjórn en hún hefði verið ein á sínum tíma.

Jóhanna varð fræg fyrir setninguna Minn tími mun koma þegar hún laut í lægra haldi fyrir Jóni Baldvini Hannibalssyni í formannskosningu í Alþýðuflokknum. Aðspurð hvort hennar tími væri kominn nú sagði Jóhanna: „Eigum við ekki bara að segja það."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×