Innlent

Ágúst Ólafur: Þarf að taka tillit til margra sjónarmiða við val á ráðherrum

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, segir að líta hafi þurfti til margra sjónarmiða þegar ákveðið var hverjir yrðu ráðherrar flokksins. Hann varð ekki fyrir valinu hjá formanninum í þetta sinn.

Aðspurður sagði hann að hann hefði haft metnað til að vera ráðherra en þetta hefði verið ákveðið. Benti hann á að margir leiðtogar flokksins kæmu úr borginni og þá hefði flokkurinn haft það mikilvæga markmið að hafa jafnt hlutfall kynja í ríkisstjórninni af sinni hálfu.

Ágúst Ólafur var einnig spurður um flokksstjórnarfund Samfylkingarinnar sem fram fór í kvöld þar sem stjórnarsáttmálinn var kynntur. Spurður hvort allir hefðu verið jafnsáttir við hann sagði Ágúst Ólafur að talsverðar umræður hefðu verið um sáttmálann en Samfylkingarfólk hefði verið ánægt með hann.

Um stjórnarsamstarfið sagði Ágúst Ólafur að alltaf þyrfti að gera málamiðlanir en þetta væri einstakt tækifæri til að komast hugsjónum jafnaðarmennskunnar í gagnið. Stjórnin yrði frjálslynd umbótastjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×