Innlent

Frumherji íhugar að áfrýja úrskurði Samkeppniseftirlitsins

Höskuldur Kári Schram skrifar
MYND/VG

Sú ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að ógilda samruna bílaskoðunarfyrirtækjanna Frumherja og Aðalskoðunar veldur vonbrigðum að sögn framkvæmdastjóra Frumherja. Hann segir fyrirtækið muni meta það á næstu dögum hvort úrskurðinum verði áfrýjað.

„Þetta er ekki það sem við lögðum upp með og ljóst að Samkeppniseftirlitið er ekki sammála okkar forsendum í málinu," sagði Orri Vignir Hlöðversson, framkvæmdastjóri Frumherja, í samtali við Vísi. „Það er ljóst að þessi niðurstaða eru vonbrigði fyrir okkur."

Samkeppniseftirlitið ógilti í dag samruna bílaskoðunarfyrirtækjanna Frumherja og Aðalskoðunar á þeim grundvelli að samruninn hindri virka samkeppni á markaðinum. Frumherji keypi í janúar allt hlutafé Aðalskoðunar og tók Samkeppniseftirlitið í kjölfarið samrunann til skoðunar.

Orri segir Frumherja hafa lagt bæði vinnu og fjármuni í samrunann og því sé ljóst að fyrirtækið komi til með að tapa einhverju á þessum úrskurði. Hann segir fyrirtækið muni ákveða á næstu dögum hvort úrskurðinum verði áfrýjað til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. „Við munum meta það á næstu dögum með okkar lögmönnum hvort úrskurðinum verði áfrýjað."

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×