Enski boltinn

Arsenal með fimm stiga forskot

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mathieu Flamini og Emmanuel Adebayor fagna fyrra marki Arsenal í dag.
Mathieu Flamini og Emmanuel Adebayor fagna fyrra marki Arsenal í dag. Nordic Photos / Getty Images

Arsenal er með fimm stiga forskot á Chelsea á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og á leik til góða í þokkabót eftir sigur á Aston Villa á útivelli í dag, 2-1.

Craig Gardner kom Aston Villa yfir en þeir Mathieu Flamini og Emmanuel Adebayor skoruðu mörk Arsenal.

Nigel Reo-Coker var ekki í byrjunarliði Aston Villa í dag og tók Craig Gardner stöðu hans. Þeir Emmanuel Adebayor og fyrirliðinn William Gallas voru komnir í byrjunarlið Arsenal á nýjan leik.

Cesc Fabregast meiddist í leiknum við Sevilla í Meistaradeildinni í vikunni og var því ekki með Arsenal.

Aston Villa hefur gengið sæmilega gegn stóru liðunum á heimavelli á tímabilinu. Liðið tapaði að vísu fyrir Liverpool og Manchester United en vann Chelsea. Nú var topplið Arsenal komið í heimsókn og Aston Villa náði forystu snemma í leiknum.

Gardner var þar að verki með góðu skoti í vítateignum eftir fyrirgjöf frá vinstri.

En Mathieu Flamini jafnaði metin áður en hálfleikurinn var liðinn með öðru góðu skoti, í þetta sinn eftir að þeir Eboye og Adebayor spiluðu sig í gegnum vörn Aston Villa.

Arsenal náði svo að bæta við öðru marki áður en hálfleikurinn var liðinn. Þar var Adebayor að verki með glæsilegu skallamarki eftir fyrirgjöf Bakari Sagna.

Topplið Arsenal sýndu glimrandi góða takta eftir að hafa lent marki undir á útivelli og sýndu og sönnuðu af hverju liðið er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Aston Villa reyndu þó að bíta frá sér í seinni hálfleik og var John Carew nærri því að jafna metin undir lok leiksins. En allt kom fyrir ekki og Arsenal tryggði stöðu sína enn fremur á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×