Enski boltinn

Liverpool fór létt með Bolton

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fernando Torres skorar hér annað mark Liverpool í dag.
Fernando Torres skorar hér annað mark Liverpool í dag. Nordic Photos / Getty Images

Steven Gerrard fór á kostum þegar Liverpool vann 4-0 stórsigur á Bolton í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Gerrard lagði upp fyrstu tvö mörkin og skoraði svo það þriðja sjálfur. Það var svo Ryan Babel sem bætti við fjórða markinu undir lok leiksins. 

Peter Crouch og Fernando Torres voru saman í fremstu víglínu Liverpool í byrjunarliðinu í fyrsta skiptið í ensku úrvalsdeildinni. Hjá Bolton voru þeir El-Hadji Diouf og Nicolas Anelka aftur í byrjunarliðinu en þeir voru hvíldir í vikunni.

Danny Guthrie lék ekki með Bolton í dag þar sem hann er lánsmaður hjá Bolton frá Liverpool.

Crouch var ekki lengi að láta til sín taka og mátti Lubomir Michalik bjarga á marklínu Bolton-marksins eftir marktilraun Crouch.

Nokkrum mínútum síðar var Diouf heppinn að sleppa með áminningu fyrir fólskulegt brot á Alvaro Arbeloa. Hann hefði auðveldlega getað fengið rautt spjald en slapp með skrekkinn.

En fyrsta markið kom á 17. mínútu og var Sami Hyypia þar að verki. Hann skallaði knöttinn í markið eftir fyrirgjöf Steven Gerrard úr aukaspyrnu.

Nicolas Anelka hefði átt að jafna metin er hann var með boltann fyrir auðu marki eftir að Jamie Carragher og Pepe Reina skullu saman. Anelka hitti ekki markið, ótrúlega nokk.

En í stað þess að Bolton jafnaði metin komst Liverpool tveimur mörkum yfir áður en hálfleikurinn var liðinn. Gerrard var enn og aftur maðurinn á bak við sókn Liverpool og gaf glæsilega sendingu á Torres sem skilaði knettinum örugglega í netið.

Þannig var staðan í hálfleik en sá síðari var ekki nema ellefu mínútna gamall þegar Gerrard skoraði sjálfur þriðja mark Liverpool eftir að hafa lagt upp hin tvö.

Brotið var á Crouch innan teigs og dæmt víti sem Gerrard skoraði örugglega úr.

Ryan Babel skoraði svo síðasta markið eftir að Jussi Jaaskelainen ver skot frá varamanninnum Dirk Kuyt sem kom inn á fyrir Torres. 

Liverpool er nú með þrjátíu stig eftir fjórtán leiki og er nú í þriðja sæti deildarinnar en Manchester United og Manchester City eru einnig með þrjátíu stig en lakara markahlutfall.

Bolton er í sautjánda sæti deildarinnar með ellefu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×