Innlent

Dreifa strætókortum til 30.000 námsmanna

Kortið í hendurnar Fjöldi sjálfboðaliða hefur dreift strætókortum í skólum höfuðborgarsvæðisins
Kortið í hendurnar Fjöldi sjálfboðaliða hefur dreift strætókortum í skólum höfuðborgarsvæðisins

„Þetta hefur verið algjör geðveiki, röð fram á gang. En við erum tilbúin að leggja smá á okkur fyrir frítt í strætó," segir Dagný Ósk Aradóttir, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Nemendafélög framhalds- og háskóla á höfuðborgarsvæðinu vinna nú hörðum höndum að dreifingu strætókorta.

„Það hefur farið endalaust tími í þetta og hellingur af sjálfboðaliðum hefur hjálpað okkur," segir Dagný. Starfsmenn á skrifstofu Stúdentaráðs eru þrír talsins og því miklar annir. „Það komu svona 150 manns í gær og stöðugur straumur alla vikuna. Við erum með um níu þúsund kort og tvö þúsund þeirra eru þegar farin," segir Dagný.

„Við erum að hjálpast að, það eru náttúrlega þrjár byggingar í HR," segir Sveinn Kristjánsson, formaður Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík. Hann segir allt að tíu manns hafa tekið þátt í dreifingunni hverju sinni.

„Þetta er gríðarlega mikil vinna, en þetta er okkar starf, þar sem við erum hagsmunafélag nemenda," segir Sveinn.

„Við höldum að 99 prósent hafi fengið kort," segir Björn Brynjúlfur Björnsson, Inspector scholae í Menntaskólanum í Reykjavík. „Þetta hefur gengið mjög vel, en eitt prósent kortanna kom ekki úr prentun. Við fáum þau á næstunni."

Dreifingin hefur ekki gengið snurðulaust fyrir sig og vantaði kort nokkurra nemenda fyrstu dagana. Pálmi Freyr Randversson hjá umhverfissviði Reykjavíkurborgar segir að ákveðið hafi verið að prenta eftir listum frá skólunum sem ekki voru fullkláraðir.

„Við vildum að nemendur gætu fengið kortin í upphafi skólans, en á þeim tíma er fólk enn þá milli skóla eða ekki rétt skráð. Núna erum við að leggja lokahönd á kort fyrir þessa nemendur," segir Pálmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×