Lífið

Ánægður með undirskriftalista

Strákasveitin Luxor er að undirbúa sína fyrstu plötu.
Strákasveitin Luxor er að undirbúa sína fyrstu plötu.

Útvarpsstöðin X-ið 977 hefur farið af stað með undirskriftalista þar sem hún skorar á umboðsmanninn Einar Bárðarson að leggja stráka- og stúlknasveitirnar Luxor og Nylon niður.

„Ég er bara meiri háttar ánægður,“ segir Einar Bárðarson. „Ef hugur þeirra lægi ekki svona þá væri ég að gera eitthvað verulega vitlaust. Hvorki Nylon né Luxor eru búin til fyrir X-ið þannig að ég bara meiri háttar ánægður með þetta. Ef þetta er eitthvað sem skemmtir hlustendum þeirra er þeim velkomið að gera þetta.“

Í fréttatilkynningu stöðvarinnar segir að íslenska þjóðin geti ekki umborið lengur þá „lágmenningu“ sem Einar hefur sent frá sér, sem hófst með Skítamóral. Nú sé einfaldlega mál að linni og stöðva skuli Einar með einu og öllu.

Þvert á óskir X-ins þá er Einar hvergi nærri af baki dottinn og virðist sterkari en nokkru sinni fyrr. Luxor er til að mynda í hljóðveri um þessar mundir að taka upp sína fyrstu plötu og er hún væntanleg 29. október. Fjölmargir tónleikar eru fyrirhugaðir hjá sveitinni á næstunni og segir Einar að eftirspurnin eftir kröftum Luxor hafi hafist áður en fólk hafi nokkurn tímann heyrt í þeim.

Lokatónleikar sveitarinnar á árinu verða 30. desember á tónleikum í Háskólabíói til styrktar krabbameinssjúkum börnum, sem Einar Bárðarson hefur staðið fyrir undanfarin ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.