Innlent

Skoða olíuhreinsistöð í Þýskalandi

Hópur sveitarstjórnarmanna frá Vestfjörðum fer til Þýskalands innan tíðar til að kynna sér rekstur olíhreinsistöðvar. Mikill áhugi er vestra fyrir hugmyndinni um slíka stöð sem annaðhvort yrði í Dýrafirði eða Arnarfirði.

Þessir tveir firðir koma helst til greina fyrir slíka stöð þar sem menn eru lausir við háar haföldur en risaolíuskip yrðu við lægi við stöðina. Staðirnir tveir tilheyra hvor sínu sveitarfélaginu, Ísafirði og Vesturbyggð, en forsvarsmenn fyrirhugaðrar olíuhreinsistöðvar hittu sveitarstjórnarmenn í Vesturbyggð í gær.

Á kynningarfundi í lok maí var Fjórðungssambandi Vestfjarða falið að gera athugun á stað undir þessa starfsemi og ýta af stað frumathugun á samfélagslegum áhrifum. Einnig var ákveðið að skipuleggja ferð til að skoða nýtískuolíuhreinsistöð í Evrópu.

Aðalsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri fjórðungssambandsins, segir að þessi vinna í heild geti nýst gagnvart öðrum hugmyndum þó að olíuhreinsistöðin verði kveikjan að henni.

Staðarvalsathugun og könnun á samfélagslegum áhrifum er á frumstigi. Aðalsteinn segir að ákveðið hafi verið að fara og skoða olíuhreinsistöð í Leuna vestur af Leipzig í Þýskalandi en hún er nokkru stærri en sú sem menn hafa áform um að reisa vestra.

Þessi stöð sé með nýjustu tækni sambærilegri þeirri sem fyrirhugað er að nota vestra, gangi áformin eftir. Skoðunarferð sveitarstjórnarmanna verður farin í byrjun næsta mánaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×