Lífið

Erfið vika hjá Venna

Vernharð Þorleifsson kinnbeinsbrotnaði illa í fótboltaleik.
Vernharð Þorleifsson kinnbeinsbrotnaði illa í fótboltaleik.

„Ég lenti í viku frá helvíti,“ segir sjónvarpsmaðurinn og fasteignasalinn Vernharð Þorleifsson sem er þessa dagana að jafna sig eftir þrjú áföll sem gerðust í lífi hans með skömmu millibili.



Fyrst var brotist inn á heimili hans í Kópavoginum. „Þetta voru einhverjir kjánaþjófar. Þetta voru örugglega þrettán ára krakkar. Þeir skildu eftir rándýra hluti en stálu klinki af borðinu,“ segir Venni. „Maður lendir kannski í þessu í örfá skipti á ævinni og það hefði verið fútt í þessu ef heimilið hefði verið tómt. Þá hefði maður getað sagt að þetta hefðu verið alvöru kallar. Núna treystir maður bara á Öryggismiðstöðina og passar að vera ekki með dýra hluti heima.“



Daginn eftir innbrotið missti Venni ömmu sína og til að bæta gráu ofan á svart kinnbeinsbrotnaði hann illa þremur dögum síðar. „Ég var í leik með „old boys“ hjá Þrótti á þriðjudagskvöld. Ég fór í skallaeinvígi og þá var ég allur.“ Auk þess að kinnbeinsbrotna á tveimur stöðum gekk kjálkinn á Venna inn. Einnig meiddist hann fyrir ofan annað augað.



Venni, sem er margreyndur júdókappi, segist aldrei áður hafa lent í höfuðmeiðslum sem þessum. „Ég hef oft lent í aðgerðum og það er búið að svæfa mig oftar en ungabarn en ég hef aldrei lent í þessu áður.“

Þrátt fyrir meiðslin ætlar Venni ekki að láta deigann síga og bíður ólmur eftir því að komast aftur í boltann. „Ég er skráður á Pollamótið eftir viku. Ég hugsa að læknirinn yrði ekki voðalega sáttur ef ég myndi mæta en maður á rosa erfitt með að halda sér frá þessu. Maður fer bara varlega næst.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.