Innlent

Grunaðir um þjófnaði á suðvesturhorninu

Frá Akranesi.
Frá Akranesi. MYND/H.Kr.

Lögreglan á Akranesi handtók í síðustu viku tvo menn en þeir eru grunaðir um aðild að nokkrum þjófnaðarmálum á suðvesturhorninu. Eftir því sem segir í dagbók lögreglunnar á Akranesi voru mennirnir teknir eftir að hafa stolið fartölvu í verslun BT á Akranesi.

Vitni sá mennina aka af vettvangi og gat gefið lýsingu á bíl þeirra. Lögregla hóf þegar leit að mönnunum og stöðvaði för þeirra skömmu síðar á Kjalarnesi. Við yfirheyrslur játaði annar mannanna tölvuþjófnaðinn í BT og einnig sams konar þjófnað í verslun Tölvuþjónustunnar.

Eftir yfirheyrslur á Akranesi voru mennirnir fluttir til Reykjavíkur en lögregla höfuðborgasvæðisins var með mál til rannsóknar þar sem þessir menn voru grunaðir. Bæði var bíllinn sem þeir óku talinn stolinn og jafnvel talið líklegt að þeir væru viðriðnir fleiri keimlík þjófnaðarmál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×