Lífið

Einfarinn í eldhúsinu

Nanna Rögnvaldardóttir segir að hún sé oft svo utan við sig að hún muni hreinlega ekki hvert hún ætli að fara. Til að mynda hafi hún oft á leið sinni í vinnuna mætt óvart á gamlan vinnustað.
Nanna Rögnvaldardóttir segir að hún sé oft svo utan við sig að hún muni hreinlega ekki hvert hún ætli að fara. Til að mynda hafi hún oft á leið sinni í vinnuna mætt óvart á gamlan vinnustað. MYND/Hörður

Nanna er kona sem flestir eldhúsfærir Íslendingar kannast við. Enda stendur hún á bak við Matarást, eina vinsælustu íslensku matreiðslubók fyrr og síðar, nokkra árganga af Gestgjafanum, Bístró sem og einar níu aðrar matreiðslubækur og þýðingar nokkurra að auki. Enn fremur þekkja margir Nönnu af bloggsíðu hennar, www.nannar.blogspot.com, en hún hefur allt frá upphafi verið ein vinsælasta íslenska bloggsíðan.

Lesendur hennar eru ekki endilega fólk í leit að uppskriftum þótt alltaf slæðist einhverjir með. Fremur eru það lifandi og skemmtileg skrif af lífi Nönnu og fjölskyldu hennar sem laða fólk að síðunni og dæmi eru um að fólk sem aldrei hefur hitt Nönnu í eigin persónu geti ekki hugsað sér að byrja daginn án þess að athuga hvað sé að frétta af henni og hennar fólki. Sjálf segist Nanna vera fremur feimin og segir að það hvað hún sé „skrítin“ megi að hluta til rekja til æsku hennar.

Uppeldi í höndum þriggja roskinna karlmanna

Nanna er fædd árið 1957. Þótt árin séu aðeins 50 síðan sú fæðing átti sér stað gætu þau af lýsingum Nönnu verið mun fleiri. „Að hluta til var ég alin upp á annarri öld, að minnsta kosti framan af. Til 11 ára aldurs bjó ég í Skagafirðinum, í Djúpadal í Blönduhlíð. Við systkinin, fjögur talsins, vorum jöfnum höndum alin upp af foreldrum okkar og svo þremur rosknum karlmönnum sem einnig bjuggu á bænum: Afa mínum og bræðrum hans. Þeim þótti öllum óskaplega vænt um okkur en voru mjög ólíkir menn þótt þeir væru bræður.

Pabbi, Rögnvaldur Gíslason, vann áratugum saman á sýsluskrifstofunni á Sauðárkróki og alla jafna dvaldi hann því ekki á heimilinu nema einn dag í viku – kom heim á laugardögum og fór aftur á Krókinn á sunnudögum. Mamma, Sigríður Jónsdóttir, var sveitahúsmóðir með allri þeirri vinuþrælk­un sem því fylgdi en bærinn var það langt frá þjóðveginum að hún kenndi okkur systkinunum heima þar til við fluttum á Sauðárkrók. Mér finnst oft eins og hún sé eini kennarinn sem ég hafi virkilega lært eitthvað af.“

Nanna segir að það að flytja á Krókinn og þá sérstaklega að hitta jafnaldra sína oftar en örsjaldan á ári hafi verið mikil viðbrigði. „Ég fann það mjög fljótt þegar ég flutti að ég var álitin mjög skrítin. Ég kunni ekki marga af þessum krakkaleikjum og talaði öðruvísi en aðrir. Það var ekki fyrr en mörgum árum síðar sem ég áttaði mig á því að mér færi best að vera ég sjálf. Þá fór mér líka að líða vel.“

Kynfræðslan á Króknum fyrir ofan garð og neðan

Nanna segist hafa verið partídýr á unglingsárum og afleiðingar þeirra var því 16 ára ólétt Nanna, á leið í menntaskólann. En Nanna átti góða að og foreldrar hennar gengu dóttur hennar í foreldrastað á meðan hún kláraði menntaskólann og svo tók Nanna við uppeldinu, sem hún segir að hafi verið mikill skóli og erfiður, ekki síst fyrir dóttur hennar sem hingað til hafði átt afar góða mömmu í ömmu sinni.

Eftir stutta viðkomu á Stokkseyri kom að því að hún flutti í bæinn, fór í háskólann þar sem hún prófaði sagnfræði og ýmis önnur fög en allra skemmtilegast fannst henni að sitja á kaffistofunni og kjafta. Í miðjum kaffistofuumræðum var Nanna orðin ólétt á ný, hóf sambúð og flutti í Skerjafjörðinn. „Strákurinn minn fæddist þegar ég var 23 ára og ég held að það ár sem á eftir fór hafi verið leiðinlegasta tímabil ævi minnar. Og sá tími sem ég hef komið hvað minnstu í verk því ég gerði eiginlega ekkert nema liggja uppi í rúmi og lesa reyfara.

Ég hef stundum hugsað mér að fara að vinna heima en ég er bæði hrædd um að ég myndi leggjast upp í rúm í reyfaralestur og svo líka að ég myndi einangra mig.“ Næstu fimm árin vann Nanna á Örnefnastofnun við ýmis ritarastörf og örnefnasöfnun og svo lá leiðin til Iðunnar. Þar átti hún eftir að starfa næstu 16 árin og vinna að sínum stærstu verkum. „Ég var ráðin inn til að svara í símann og skrifa reikninga og sjálfstraustið var svo lítið á þeim tíma að ég var hreint ekki viss um að ég myndi bara ráða við starfið. Ég hélt einhvern veginn að ég væri algjörlega gagnslaus. Til allrar hamingju var Jón Karlsson forstjóri mjög fljótur að sjá að hann gæti líklega notað mig í ýmislegt annað.“ Þó voru enn nokkur ár í að matreiðslubókaferillinn hæfist en það var ekki fyrr en tæpum tíu árum síðar sem Matarást, fyrsta matreiðslubók Nönnu, kom út.

Eldamennskan hófst um þrítugt

Upphaf matreiðslubóka Nönnu má rekja til þess þegar hún var þrítug þótt ekki hafi bókin komið út fyrr en hún var að verða fertug. „Það var þrennt sem gerðist þegar ég var um þrítugt. Í fyrsta lagi skildi ég, sem kallaði á ákveðið sjálfstæði í eldhúsinu, að þurfa ekki lengur að elda það sem eiginmaðurinn vildi. Í öðru lagi fór ég að vinna meira um það leyti sem þýddi að ég varð að fara að huga að matreiðslu sem tók skemmri tíma og það þriðja var að ég hætti að reykja og fór loks að finna almennilegt bragð. Fram að þessu hafði ég ekki verið neinn sérstakur kokkur en þarna var eins og það kviknaði á mér og ég fór að hafa ofsalega gaman af því að elda og gerði það vel.“

Það er samt ákveðin þversögn í því að Nanna hafi fyrst farið að elda af virkilegri elju um þrítugt því allt frá menntaskólaaldri hafði hún haft mikla ást á og safnað matreiðslubókum. Matreiðslubækur las hún eins og aðrir lesa skáldsögur og í dag á hún um 1.600 bækur. Líklega er matreiðslubókaáhuginn meðfæddur.

„Það var eitthvað í matreiðslubókunum sem höfðaði til mín. Og ég hef stálminni á alla kafla í til að mynda skáldsögum sem tengjast mat. Eitt sinn las ég reyfara sem ég hélt að ég hefði aldrei lesið áður. Allt þar til ég kom að opnu þar sem dýrindisveisluföngum var lýst. Þá mundi ég hvert smáatriði af kræsingarlýsingunum.“

Súkkulaðikremið

Þegar eldamennskan hófst að ráði í lífi Nönnu segist hún fljótt hafa áttað sig á því að hún yrði að skrifa niður hluti sem heppnuðust vel. Bolludagurinn 1989 verður lengi í minnum hafður. Þá útbjó Nanna súkkulaðikrem sem sonur hennar var í skýjunum með. Árið eftir átti allt að heppnast jafn stórkostlega en súkkulaðikremið var „ekki eins og síðast“ að sögn afkvæmisins. Leitin mikla að súkkulaðikreminu, bar hins vegar ekki árangur.

„Ég fór upp úr þessu að leggja mikla rækt við að skrifa niður hvernig átti að gera hlutina og alls kyns fróðleik um hráefnið. Smám saman breyttust þessir punktar í stóra skrá í tölvunni minni sem ég fór svo að prenta út og ljósrita handa vinum og ættingjum. Til þess var ég að stelast í vinnunni og alltaf stækkaði og stækkaði skráin. Að lokum var þetta orðið svo umfangsmikil útprentun að ég hafði ekki samvisku í mér að vera að nota prentara og ljósritunarvél vinnustaðarins í þetta og ákvað að prenta út eina lokaútgáfu. Þar sem ég er að ljósrita hana þarf ég að skreppa frá og kem stuttu síðar að Jóni forstjóra við ljósritunarvélina þar sem hann er að blaða í þessu. Ég hugsaði með mér að nú fengi ég skammir í hattinn. Jón spyr mig hvað þetta sé sem ég segi honum og þá segir hann: „Nanna, við gefum þetta út. Nú færð þú þann tíma sem þú þarft til að klára þetta og svo gefum við þetta út.“ Og úr varð Matarást: Afrakstur 15 ára glósuvinnu Nönnu.

Í eigin heimi og fótafjöldi á reiki

Nanna er eftir nokkurra ára stopp í matarblaðamennsku aftur komin í gamla fagið hjá Eddu og þar verður vinna við matreiðslubækur hluti starfs hennar. Þessa dagana er að koma út bókin Maturinn okkar, sem er íslensk þýðing á Cool cuisine eftir Nönnu sem út kom fyrir tveimur árum. Hún hefur einnig lokið við að þýða aðra sem kallast Stóra matarbókin, bók þar sem heimsfrægir kokkar kenna óbreyttum að elda að hætti listakokka. Og þriðja bókin er einnig í vinnslu, Af bestu lyst III. Hvað aðrar stundir í sólarhringnum varðar segist Nanna annars vera svolítil dellukona.

Þessa dagana dvelur hún mikið á eBay í leit að skemmtilegum borðbúnaði og er nú að sverma fyrir skeiðahitara um leið og hún viðurkennir að vita ekki almennilega til hvers hún á að vera að hita skeiðarnar. En er það rétt sem sagt er að Nanna sé svo utan við sig að hún mæti jafnvel í fötunum á röngunni í vinnuna? „Já, já. Ég veit ekki hvort ég geti sagt frá því en einu sinni kom það fyrir mig í alvöru að ég stoppaði sem örsnöggvast og reyndi að muna hvort ég væri með einn fót eða tvo. Ég er stundum á sjálfstýringu, alveg í mínum eigin heimi. Og enda þar af leiðandi oft bara einhvers staðar allt annars staðar en ég ætlaði að enda.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.