Handbolti

Nikola Karabatic í nærmynd

NordicPhotos/GettyImages
„Þið æfið of lítið" sagði þá tvítugur Nikola Karabatic við spænska stórliðið Ciudad Real þegar þeir buðu honum samning fyrir tveimur árum. Í stað þess ákvað hann að fara frá Montpellier til Kiel í Þýskalandi, þar sem hann hafði frétt að æfingar væru erfiðari og strangari en annarsstaðar undir stjórn Noka Serdarusic, gamals vinar pabba hans.

Karabatic er nefnilega af handboltaættum. Þegar hann var bara fjögurra ára flutti hann með fjölskyldu sinni frá Júgóslavíu til Frakklands þar sem pabbi hans, Branco Karabatic lék sem atvinnumaður í handbolta. Eftir farsælan feril sem atvinnumaður hóf Branco feril sem þjálfari og hann starfar enn sem ráðgjafi fyrir franska handknattleikssambandið.

Nikola fór að æfa handbolta aðeins sex ára gamall í Colmar og voru hæfileikar hans svo augljósir að þegar hann var 16 ára skrifaði hann undir atvinnumannasamning við toppliðið Montpellier. Þar vann hann fjóra meistaratitla, fjóra bikartitla og Meistaradeild Evrópu einu sinni, allt fyrir tvítugt en þá ákvað hann að flytja sig til Þýskalands.

Auðvitað varð Karabatic meistari á sínu fyrsta tímabili með Kiel og var valinn besta vinstri skyttan í þýsku deildinni af öllum þeim sem á annað borð stunda slík kjör. Karabatic kemst ansi nærri því að vera hinn fullkomni handboltamaður. Hann er fljótur, með mikinn sprengikraft, frábæra skottækni, gott auga fyrir leiknum og frábært hugarfar.

Í frönsku liði sem er svo til án veikra hlekkja stóð Karabatic uppi sem sá besti, með 11 mörk og magnaðan leik í úrslitaleiknum á móti Spánverjum á EM 2006, þar sem Frakkar gjörsigruðu heimsmeistarana 31-23.

Það er engin spurning að þessi ungi og geysiöflugi leikmaður hefur æft vel og mikið með Kiel og hefur fullan hug á því að tryggja sér og Frökkum heimsmeistaratitil, í landinu sem sem er það þriðja sem hann hefur kallað sitt heimaland.

Staða: Vinstri skytta

Fæddur: 11. apríl 1984 í Nis í Serbíu (er með franskt ríkisfang og leikur fyrir franska landsliðið)

Félagslið: Kiel í Þýskalandi



Fleiri fréttir

Sjá meira


×