Handbolti

Klaufa­skapur og ótrú­legar loka­sekúndur á HM

Aron Guðmundsson skrifar
Frá leiknum fyrr í dag
Frá leiknum fyrr í dag Vísir/Getty

Færeyjar og Serbía gerðu ótrú­legt jafn­tefli í milli­riðli tvö á HM kvenna í hand­bolta í dag. Al­gjör klaufa­skapur Serbanna sá til þess að þær misstu frá sér unninn leik.

Færeyska lands­liðið var tveimur mörkum yfir þegar rétt innan við níu mínútur eftir lifðu leiks en Serbunum tókst að jafna þegar rétt um fimm mínútur voru eftir og voru loka­mínúturnar æsi­spennandi.

Staðan var jöfn 30-30 og innan við mínúta eftir þegar að Jovana Skrobic braust í gegn og kom Serbum yfir 31-30 með sínu áttunda marki í leiknum og þær færeysku tóku leik­hlé um leið.

Í kjölfarið héldu þær svo í sókn en Jovana Riso­vic sá við þeim í marki Serba sem héldu í kjölfarið í sókn en fengu á ein­hvern ótrú­legan hátt dæmda á sig leiktöf og gáfu mark­verði Færeyja svo ekki nægjan­legt pláss til að koma boltanum í leik sem var þess valdandi að Færeyingar fengu vítakast hinu megin.

Jana Mittún tók vítakastið og jafnaði leikinn 31-31 á loka­sekúndunum og reyndust það lokatölur leiksins.

Ótrú­legur leikur á enda en úr­slitin gera það að verkum að Serbía er nú í 2.sæti milli­riðilsins með fimm stig, Færeyjar eru með þrjú stig en möguleiki liðsins á sæti í átta liða úrslitum er úr sögunni fyrir lokaumferð riðilsins. 

Jana Mittún átti frábæran leik í liði Færeyja í dag, hún skoraði tíu mörk og gaf þrjár stoð­sendingar. Jovana Skrobic og Katarina Slezak voru marka­hæstar í liði Serbíu með átta mörk hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×