Innlent

Formenn leggja fram sáttafrumvarp

Formenn stjórnarflokkanna munu leggja fram þingmannafrumvarp um breytingu á stjórnarskránni, sem tryggja á að allar náttúruauðlindir Íslands skuli vera þjóðareign. Þar með er lokið einu mesta átakamáli stjórnarflokkanna á yfirstandandi kjörtímabili.

Óhætt er að segja að opinberlega er töluvert síðan önnur eins kreppa hefur ríkt í stjórnarsamstarfinu og undanfarna viku um auðlindamálið og stjórnarskrána. Eftir að formenn stjórnarflokkanna funduðu í gærkvöldi, tók við kvöldfundur þingflokks Framsóknarmanna sem stóð til að verða eitt í nótt. Að loknum þeim fundi taldi formaður Framsóknarflokksins að samkomulag gæti tekist í dag.

Þingflokkur Sjálfstæðismanna kom svo saman til óformlegs fundar klukkan þrjú, þar sem forsætisráðherra kynnti flokksmönnum sínum samkomulag sitt við formann Framsóknarflokksins. Niðurstaðan var að þeir tveir leggja fram í eigin nafni þingmannafrumvarp um breytingu á stjórnarskránni en ákvæðið hljómar þannig.

Náttúruauðlindir Íslands skulu vera þjóðareign, þó þannig að gætt sé réttinda einstaklinga og lögaðila skv. 72. gr. Ber að nýta þær til hagsbóta þjóðinni, eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Ekki skal þetta vera því til fyrirstöðu að einkaaðilum séu veittar heimildir til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum skv. lögum.

"Og þetta ber vitni um þann vana í þessu stjórnarsamstarfi að vandamálin eru greind, þau eru tekin sem viðfangsefni, viðfangsefninu er breytt í úrlausn og úrlausnin verður framfarir og umbætur fyrir alla þjóðina," sagði Jón Sigurðsson formaður Framsóknarflokksins á sameiginlegum blaðamannafundi formanna og varaformanna stjórnarflokkanna á Alþingi í dag.

Það kom mörgum á óvart hvað Framsóknaflokkurinn rak þetta mál stíft, en formaður Sjálfstæðisflokksins vildi þó ekki meina að Framsóknarmenn hefðu stillt Sjálfstæðismönnum upp við vegg í þessu máli.

"Nei, það er nú ekki hægt að segja það. En hins vegar hafði ég ekki gert mér grein fyrir því að þetta væri þeim jafn mikið alvörumál og kom á daginn. En þegar það varð ljóst fórum við náttúrlega í það að finna lausnina," sagði Geir H Haarde forsætisráðherra.

Formenn stjórnarflokkaanna kannast ekki við að samið hafi verið um afgreiðslu annarra mála milli flokkanna í þessu samhengi.

Afgreiðsla annarra mála milli stjórnarflokkanna voru ekki rædd í þessu samhengi að sögn formannanna. Framsóknarflokkurinn hafi ekki þurft að gefa eftir í öðrum málum til að fá þessa niðurstöðu fram.

Formenn stjórnarflokkanna segja að ef breytingin nái fram að ganga hafi það ekki mikil áhrif til að byrja með, t.a.m. á stöðu sjávarútvegsins, enda ráð fyrir því gert að einkaaðilar geti nýtt auðlindir landsins þótt slíkt leyfi kunni að vera afturkræft. Þetta breyti heldur engu um virkjanamöguleika.

"Það er ástæða til að vekja athygli á því að þrátt fyrir skilgreininguna á þjóðareign, þá eru öll eignaréttindi, bein og óbein, sem heyra undir 72. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að eignarétturinn sé friðhelgur, þau eignaréttindi eru sérstaklega varin með þessu ákvæði hér," sagði Geir H Haarde forsætisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×