Innlent

Telja útivistarsvæði stefnt í hættu

Elliðavatn.
Elliðavatn. MYND/Kópavogsbær

Tillögur meirihlutans í bæjarstjórn Kópavogs um nýtt rammaskipulag á útivistarsvæði við Elliðavatn brýtur gróflega gegn náttúrunni og takmarkar aðgengi almennings að svæðinu að mati minnihlutans. Samkvæmt þeim drögum sem nú liggja fyrir mun fyrirhugað 50 metra helgunarsvæði meðfram vatninu verða minnkað niður í 15 metra. Formaður bæjarstjórnar segir aðeins um tillögur að ræða og ekkert ákveðið.

„Við viljum frekar sjá blandaða byggð á svæðinu og alls ekki hefta aðgengi almennings að Elliðavatni eins og núverandi tillögur gera ráð fyrir," segir Guðríður Arnardóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi.

Samkvæmt núverandi tillögum að nýju rammaskipulagi við Elliðavatn, sem bæjarstjórn Kópavogs samþykkti á þriðjudaginn, er gert ráð fyrir að 7.500 manna byggð muni teygja sig upp og yfir Guðmundarlund og liggja við jaðar Heiðmerkurinnar. Þá verður fyrirhugað 50 metra helgunarsvæði meðfram vatninu minnkað niður í 15 metra. Minnihlutinn í bæjarstjórn Kópavogs hefur mótmælt tillögunum harðlega og telur nauðsynlegt að þétta ekki byggð við vatnið meira en þörf þykir.

Meirihlutinn bendir hins vegar á að ekki liggi fyrir deiliskipulagstillögur af svæðinu með tilliti til samsetningu byggðar. Þá sé í núverandi rammaskipulagi lögð rík áhersla á útivist fyrir væntanlega íbúa meðal annars með uppbygging nýrra útivistarsvæða.

Ármann Kr. Ólafsson, forseti bæjarstjórnar og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir málið á frumstigi og ekkert ákveðið. Hann bendir hins vegar á að í dag sé aðgengi að Elliðavatni slæmt. „Það er varla hægt að tala um aðgengi að vatninu í dag. Við viljum bæta úr því."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×