Lífið

Yngsti klerkur landsins

Fékk áhuga á prestsskap þegar hann tók þátt í æskulýðsstarfi kirkjunnar í Vestmannaeyjum þegar hann var peyi.  Fréttablaðið/Anton
Fékk áhuga á prestsskap þegar hann tók þátt í æskulýðsstarfi kirkjunnar í Vestmannaeyjum þegar hann var peyi. Fréttablaðið/Anton

Það verður stór stund í lífi Ólafs Jóhanns Borgþórssonar þegar hann verður vígður til prests. Auk þess markar vígsl-an önnur tímamót, því Ólafur Jóhann er aðeins á 26. aldursári og verður því yngsti prestur landsins. „Ekki þó frá upphafi,“ áréttar hann. „En þetta er sannarlega skemmtilegt þótt það sé auðvitað aukaatriði í sjálfu sér.“

Ólafur er Eyjapeyi og ákvað það fyrir margt löngu að gerast prestur. „Ég ákvað það þegar ég var í 8. bekk og hef haldið nokkuð fast í það síðan. Það verður því ekki síst skemmtilegt að fá brauðið í ljósi þess að ég hef stefnt að þessu lengi.“ Þótt Ólafur Jóhann hafi lengi haft áhuga á trúmálum er hann ekki kominn af mikilli prestaætt. „Ég á einn fjarskyldan ættingja sem er prestur. Áhugi minn á starfinu kviknaði þegar ég var ungur og starfaði mikið í æskulýðsstarfi kirkjunnar í Vestmannaeyjum.

Þar fylgdist maður með starfi prestanna og því sem fylgdi, þar á meðal að taka þátt í stærstu stundum í lífi fólks. Prestar vinna að góðum hlutum og auðvitað á trúin ríkan þátt í þessu; að boða hinn æðsta boðskap er skemmtilegt og krefjandi verkefni sem mig langar að taka þátt í.“

Ólafur Jóhann verður vígður til Seljakirkju og stígur því sín fyrstu skref í prestsskap í Reykjavík og líkar það vel.

„Ég er mikill landsbyggðarmaður í hjarta mér og vissulega væri spennandi að fara út á land, en hér í borginni er líka nóg af fólki. Ég hef starfað í Seljakirkju í hartnær tvö ár, sinnt æskulýðsstarfi og fleiru, og kann vel við mig í þessari sókn.“

Ólafur býst við að halda upp á daginn með fjölskyldu sinni. „Við eigum sjálfsagt eftir að gera eitthvað skemmtilegt saman. Ég hlakka mikið til, þetta verður ábyggilega góður dagur og það er mikið og spennandi starf fram undan.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.