Innlent

Starfslokasamningar þurfa ekki að vera einkamál fyrirtækja

Starfslokasamningar þurfa ekki að vera einkamál fyrirtækja sem slíka samninga gera eða æðstu stjórnenda þeirra, segir viðskiptasiðfræðingur við Háskólann í Reykjavík. Hann segir að almenningur geti gert kröfu um að fyrirtæki sem skipta miklu máli í samfélaginu borgi starfsmönnum sínum laun í takt við hefðir og venjur í samfélaginu en snúi ella baki við fyrirækinu.

Þegar kaupréttarsamningar voru gerðir við forstjóra og stjórnarformann KB banka fyrir ríflega tveimur árum ofbauð þáverandi forsætisráðherra og sagði hingað og ekki lengra. Gekk hann í bankann ásamt fjölmiðlamönnum og tók sparifé sitt út úr bankanum. Skömmu síðar voru kaupréttarsamningarnir dregnir tilbaka. Með svipuðum hætti getur almenningur látið að sér kveða blöskri honum launakjör eða ríkulegir starfslokasamningar sem gerðir eru við æðstu stjórnendur fyrirtækja sem leika stórt hlutverk í samfélaginu. Líki almenningi ekki nýlegur starfslokasamningur við fyrrum forstjóra FL group upp á 130 milljónir getur hann einfaldlega beint viðskiptum sínum annað. Almenningur getur valið hvar hann verslar. Ketill Ketill Berg Magnússon, viðskipstasiðfræðingur við HR segir að samkvæmt markaðskenningum þá sé það leið almennings að versla við fyrirtæki, eða sleppa því ef fólk sé ekki sátt við það sem fyrirtækið gerir. Hann segir að fákeppnismarkaður ríki hér á landi að mestu en þó sé hægt að fara með öðrum leiðum til útlanda en með Icelandair.

Ketill bendir einnig á að stjórnmálamenn geta endurómað rödd almennings þótt þeir geti ekki haft afskipti með beinum hætti. Þá segir hann að hluthafar fyrirtækja, stórir sem smáir, eigi einnig rétt á því að starfslokasamningar séu gagnsæjir þannig að auðvelt sé að sjá hvernig þeir skili fyrirtækinu og þar með hluthöfum auknu virði. Þeir eigi réttmæta kröfu til þess. Finnst Katli upphæð starfslokasamnings við fyrrum forstjóra Flugleiða eðlileg? Ketill segir erfitt að svara því en það sé ljóst að þarna sé um að ræða gríðarlega háa upphæð sem erfitt sé að skilja hvers vegna sé. Hann segist ekki geta svarað fyrir foresendur þesss að þessi háa upphæð sé greidd án þess að vita raunverulegar forsendur að baki málsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×